Aðeins ein stjarnfræðieining í Plútó

New Horizons er byrjað að nálgast afleggjarann að Plútó.
New Horizons er byrjað að nálgast afleggjarann að Plútó. NASA

Geimfarið New Horizons er nú aðeins einni stjarnfræðieiningu frá áfangastað sínum, Plútó. Áætlað er að farið fljúgi fram hjá dvergreikistjörnunni og tunglum hennar í sumar en því var skotið á loft árið 2006.

New Horizons náði þessum áfanga í gær en ein stjarnfræðieining er meðalfjarlægðin á milli sólar og jarðar, um 150 milljón kílómetrar. Til samanburðar er geimfarið nú í tæplega 32 stjarnfræðieininga fjarlægð frá sólinni. Það eru um 4,8 milljarðar kílómetrar.

Sjö mælitæki eru um borð í New Horizons til að gera fjarkannanir á Plútó og tunglunum Karon, Styx, Nix, Kerberos og Hýdru en jafnframt beinar mælingar á segulsviði, ryki, jónum og ýmsum öðrum eindum sem verða á vegi farsins í nágrenni kerfisins.

Næst mun New Horizons fara í um 13.700 kílómetra fjarlægð frá dvergreikistjörnunni Plútó 14. júlí. Til samanburðar er fjarlægðin milli jarðarinnar og tunglsins um 384.000 kílómetrar. Á þeim tímapunkti mun það taka merki frá könnunarfarinu fjórar klukkustundir og 25 mínútur að berast til jarðarinnar. Gögn munu þó ekki berast fyrr en 15. júlí, daginn eftir nánustu kynni Plútó og New Horizons, þar sem farinu verður ekki beint strax til jarðar. Þá munu meðal annars berast svarthvítar myndir af yfirborðinu.

Geimfarinu var skotið á loft í janúar árið 2006 og setti met yfir mesta hraða sem manngert far hefur náð á leið sinni frá jörðinni, rúmlega sextán kílómetra hraða á sekúndu en það er um það bil hraðinn sem far þarf að ná til að sleppa undan þyngdarsviði jarðarinnar og sólarinnar. Áður en yfir lýkur mun New Horizons hafa ferðast um 4,7 milljarða kílómetra.

Brautin sem New Horizons hefur tekið í gegnum sólkerfið.
Brautin sem New Horizons hefur tekið í gegnum sólkerfið. NASA
mbl.is
INTENSIVE ICELANDIC, ENGLISH, NORWEGIAN, DANISH & SWEDISH f. foreigners - ÍSLENSKA f.útl - ENSKA - NORSKA, DANSKA, SÆNSKA
ÍSLENSKA, ENSKA, NORSKA, DANSKA, SÆNSKA I, II, III, IV, V, VI: Starting dates...
Malbiksviðgerðir
vertíðin hafin endilega leitið tilboða S: 551 400 - verktak@verktak.is eð...
Hellulagnir
Vertíðin hafin hafið samband í símum: 551 4000, 690 8000 á verktak@verktak.is...