Tappinn að losna úr Suðurskautslandinu

Rannsóknir alþjóðlegs hóps vísindamanna benda til þess að Totten-jökullinn á Suðurskautslandinu sé að bráðna hraðar en menn töldu vegna þess að hlýr sjór kemst undir hann. Jökullinn heldur aftur mun stærri ísbreiðu sem gæti hækkað yfirborð sjávar um rúma þrjá metra, aðallega á norðurhveli jarðar.

Í fyrra komust menn að því að ísinn á vesturhluta Suðurskautslandinu væri að bráðna hraðar en áður hafði verið áætlað vegna hnattrænnar hlýnunar. Sú þróun gæti verið óafturkræf og gæti valdið því að yfirborð sjávar hækkaði um þrjá metra yfir næstu áratugi og aldir. Í nýrri grein sem birtist í Nature Geoscience eru lögð fram gögn sem benda til þess að það sama sé að gerast á austurhluta Suðurskautslandsins. Fjallað er um rannsóknina á vefsíðu bandaríska dagblaðsins The Washington Post.

Hópur vísindamanna frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og Ástralíu gerði fjölda mælinga úr lofti yfir Totten-jöklinum á austurhluta Suðurskautslandsins en það er sá hluti ísbreiðunnar sem þynnist hvað hraðast. Jökullinn þekur svæði sem er 145 sinnum 35 kílómetrar að flatarmáli. Rúmmál íssins sem bráðnar þar á hverju ári er hundrað sinnum meira en rúmmál hafnarinnar í Sydney.

Hættan er að ef jökullinn, sem teygir sig frá landinu út á hafið, bráðnar hratt þá muni mun stærri ísbreiðan á föstu landi skríða hraðar út í sjó. Jökullinn virki eins og tappi sem haldi ísnum fyrir aftan á sínum stað. Mælingar vísindamannanna leiddu meðal annars í ljós djúpa neðansjávardali undir ísnum þar sem menn töldu áður að væri fast land. Þar gæti hlýr sjór komist undir og hraðað bráðnun jökulsins.

Á sér stað yfir hundruð ára

Sú bráðnun sem hefur átt sér stað og möguleikinn á að hlýtt vatn komist undir jökulinn gefur vísindamönnum tilefni til að ætla að hlýrri sjór sé orsök hraðari bráðnunar á austurhluta Suðurskautslandsins líkt og er að gerast á vesturhlutanum. Vísindamennirnir gátu hins vegar ekki mælt hitastig sjávarins sem kemst undir jökulinn með beinum hætti og því er ekki hægt að fullyrða að það sé það sem er að gerast á þessari stundu, þó að önnur gögn bendi til þess.

Bráðni stór hluti íssins á Suðurskautslandinu hefur það alvarlega afleiðingar. Hækkun á yfirborði sjávar myndi ekki dreifast jafnt yfir jörðina vegna þyngdaraflsins. Suðurskautslandið er svo massamikið að það dregur sjóinn að sér. Ef slaknar á þyngdarkrafti Suðurskautslandsins hörfar sjórinn aftur til norðurhvelsins og hækkar yfirborð sjávar meira þar.

Almennt er þó talið að þessi þróun eigi eftir að taka hundruð ára. Hættan er hins vegar að ekki sé lengur hægt að snúa henni við og að jörðin sem komandi kynslóðir manna koma til með að búa á verði annar staður en sá sem menn þekkja nú.

Grein The Washington Post um bráðnun á Suðurskautslandinu 

Totten-jökullinn er sá hluti austurhluta Suðurskautslandsins sem bráðnar hvað hraðast ...
Totten-jökullinn er sá hluti austurhluta Suðurskautslandsins sem bráðnar hvað hraðast um þessar mundir. AFP
Ísbrjótur á siglingu utan við Totten-jökulinn.
Ísbrjótur á siglingu utan við Totten-jökulinn. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

EIGUM ALLSKONAR STIGA Á LAGER
Sjá fjölmargar gerðir á: http://www.sogem-sa.com/stairs Sími 615 1750 Sjá einni...
Heilsuráðgjafi, Einkaþjálfari, Nuddari og fl.
Nudd, Næringaráðgjöf og Einkaþjálfun eftir þinni getu, einnig fyrirbyggjandi þjá...
dönsk antik innskotsborð sími 869-2798
dönsk antik innskotsborðinnlögð með rósamunstri í toppástandi á 35,000 kr sími...