Nálægt því að finna líf utan jarðar

Mynd sem könnunarfarið Galíleó tók af Evrópu. Þó að ískalt …
Mynd sem könnunarfarið Galíleó tók af Evrópu. Þó að ískalt sé á Evrópu er talið undir skorpunni gæti verið að finna fljótandi vatn vegna flóðkrafta af völdum nálægðarinnar við gasrisann Júpíter eða vegna gosvirkni. NASA

Menn munu finna sterkar vísbendingar um líf utan jarðarinnar á næsta áratugnum og áreiðanlega sönnun fyrir tilvist þess á næstu 20-30 árum, að mati Ellen Stofan, yfirvísindamanns NASA. Tæknin sé þegar til staðar til að greina merki um líf og fleiri tól munu bætast við á næstu árum og áratugum.

„Við vitum hvar við eigum að leita. Við vitum hvernig við eigum að leita. Í flestum tilfellum ráðum við yfir tækninni og við erum á leiðinni með að nýta okkur hana. Þess vegna held ég að við séum áreiðanlega á leiðinni,“ sagði Stofan í pallborðsumræðum um tilraunir bandarísku geimvísindastofnunarinnar til að finna byggjanlega heima og líf utan jarðarinnar.

Fyrrum geimfarinn John Grunsfeld tók undir orð Stofan og spáði því að merki um líf muni finnast tiltölulega fljótt, bæði í sólkerfinu okkar og utan þess.

„Ég held að við séum einni kynslóð frá því í sólkerfinu okkar, hvort sem það er á ístungli eða á Mars, og einni kynslóð frá því á reikistjörnu á braut um nálæga stjörnu,“ sagði Grunsfield.

Leiðangrar til Mars og Evrópu

Undanfarin ár og áratugi hafa hugmyndir manna um hvers konar umhverfi getur staðið undir lífi breyst verulega. Nú telja menn að höf fljótandi vatns geti verið að finna undir íshellum tungla gasrisanna Júpíters og Satúrnusar, þar á meðal á Evrópu, Ganýmedesi og Enceladusi. Þá þakti úthaf stóran hluta yfirborðs Mars í fortíðinni. Kepler-geimsjónaukinn hefur einnig sýnt fram á að nærri því hver einasta stjarna á stjörnuhimninum hafi reikistjörnur sem ganga á braut um sig.

Í framtíðinni stendur til að rannsaka suma þessara staða enn nánar. NASA ætlar að senda annan könnunarjeppa til Mars, mögulega strax árið 2020, sem á meðal annars að leita að merkjum um líf sem gæti hafa kviknað þegar úthöfin voru enn til staðar. Langtímamarkmið NASA er einnig að senda geimfara til reikistjörnunnar, hugsanlega á 4. áratug þessara aldar.

Evrópa, tungl Júpíters, og mögulegt úthaf undir ísskorpu hennar þykir ekki hvað síst spennandi fyrir leitina að lífi utan jarðarinnar. NASA hefur í hyggju að senda könnunarfar þangað og gæti því jafnvel verið skotið á loft árið 2022.

Þurfa að loka á bjarmann frá móðurstjörnunum

Hvað varðar fjarreikistjörnur verður James Webb-stjörnusjónaukanum skotið á loft árið 2018 ef allt gengur eftir áætlun. Hann mun geta rannsakað lofthjúpa svonefndra ofurjarða utan sólkerfis okkar. Með honum væri mögulegt hægt að finna merki um gastegundir sem lifandi verur framleiða.

Snúnara verður hins vegar að efnagreina lofthjúpa smærri bergreikistjarna sem líkjast jörðinni. Til þess að hægt sé að gera það þarf líklega að mynda þær með beinum hætti en til þess þurfa menn að geta útilokað ljósið frá móðurstjörnum þeirra sem drekkja annars mun daufari reikistjörnunum í mælitækjum frá jörðinni.

NASA er hins vegar með á teikniborðinu sjónauka sem væri þannig útbúinn, Wide-Field Infrared Survey-sjónaukann. Fáist verkefnið samþykkt gæti honum verið skotið á loft um miðjan næsta áratug.

Mynd sem könnunarjeppinn Opportunity tók af toppi Erfiðleikahöfða á Mars …
Mynd sem könnunarjeppinn Opportunity tók af toppi Erfiðleikahöfða á Mars 6. janúar 2015. Ummerki um líf gætu mögulega fundist á reikistjörnunni í framtíðinni. NASA/JPL-Caltech
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert