Hvalirnir ferðast þvert yfir Kyrrahafið

Vísindamenn telja hugsanlegt að sandlægjur í Kyrrahafi tilheyri sama stofninum en áður var talið að um tvo stofna væri að ræða. Einn sem héldi sig við strönd Norður-Ameríku og annan við strönd Austur-Asíu. 

Grein er frá rannsókn vísindamannanna í nýjasta tölublaði vísindaritsins Biology letters. Niðurstöður þeirra benda til þess að kvenkyns sandlægjur við Austur-Asíu ferðist yfir Kyrrahafið að ströndum Mexíkó til þess að eignast afkvæmi sín. Þetta átti við um þrjár af sjö kvenkyns sandlægjum sem rannsakaðar voru. Um er að ræða lengsta ferðalag spendýrs í þeim tilgangi sem vitað er um.

Haft er eftir Bruce Mate, prófessor við Oregon-háskóla í Bandaríkjunum, í frétt breska ríkisútvarpsins BBC að ef um hefðbundið ferli sé að ræða leiði það af sér þá niðurstöðu að um einn stofn sé að ræða. Eftir sem áður væri sá möguleiki fyrir hendi að enn væru fyrir hendi sandlægjur af stofni sem héldi sig eingöngu við Austur-Asíu en vísindamenn hafa til þess að talið að stofninn þar væri í útrýmingarhættu.

Niðurstöðurnar benda þannig til þess að annað hvort sé um einn og sama stofninn að ræða eða að tengsl séu á milli þeirra. Fram kemur í fréttinni að vísindamenn telji einnig hugsanlegt að stofn sandlægja við Austur-Asíu sé útdauður en stofninn við strönd Norður-Ameríku sé að breyta hegðunarmynstri sínum í Kyrrahafinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert