Framhjáflugið formlega hafið

Þessa mynd af Plútó tók New Horizons úr átta milljón …
Þessa mynd af Plútó tók New Horizons úr átta milljón kílómetra fjarlægð 7. júlí. NASA-JHUAPL-SWRI

Hver einasta mynd sem New Horizons sendir til jarðar er sú besta sem tekin hefur verið af dvergreikistjörnunni Plútó. Nýjasta myndin er tekin úr aðeins átta milljón kílómetra fjarlægð og sýnir um það bil það svæði sem farið mun mynda þegar það flýgur framhjá hnettinum í næstu viku.

Myndin, sem tekin var á þriðjudag, er sú fyrsta sem New Horizons sendir til baka eftir galla sem kom upp í tölvubúnaði geimfarsins um helgina. Eftir að hafa verið í öryggisham í nokkra daga hóf farið vísindastörf á nýjan leik. Flug geimfarsins fram hjá Plútó er nú formlega hafið.

„Þær eru ennþá nokkuð óskýrar en þetta eru langbestu myndir sem við höfum séð af Plútó og þær eiga bara eftir að batna,“ segir John Spencer, einn af leiðangursstjórum New Horizons.

Enn sem komið er vita menn ekki hvers vegna svo mikill litamunur er á yfirborði dvergreikistjörnunnar en þar skiptast á dökk og björt svæði. Menn geta sér þess til að björtustu svæðin séu frosið kolmónoxíð og þau dökku kolvatnsefni sem hafa fallið niður úr þunnum lofthjúpnum.

Þegar New Horizons flýgur fram hjá Plútó og tunglum hans á þriðjudag verða menn margs vísari um þennan fjarlægasta hnött sólkerfisins sem menn munu þá hafa kannað. Upplausn myndanna sem þá verða teknar verður um 500 sinnum betri en nú, að sögn vísindamannanna.

mbl.is