Það snjóar á Plútó

Allan Stern, aðalvísindamaður New Horizons, (f.m.) var að vonum ánægður …
Allan Stern, aðalvísindamaður New Horizons, (f.m.) var að vonum ánægður þegar geimfarið flaug næst Plútó í hádeginu. AFP

Plútó er klárlega heimur þar sem jarðfræði og andrúmsloft leika stórt hlutverk af myndunum sem New Horizons hefur sent til jarðar að dæma. Þetta er mat Alan Stern, yfirvísindamanns leiðangursins. Honum sýnist allt benda til þess að það snjói úr þunnum lofthjúpi dvergreikistjörnunnar.

New Horizons flug fram hjá Plútó í hádeginu eftir níu og hálfs árs og tæplega fimm milljarða kílómetra ferðalag. Næst komst það kl. 11:48 að íslenskum tíma, var 72 sekúndum á undan áætlun og flaug 70 kílómetrum nær hnettinum, ef útreikningar leiðangursstjórnarinnar eru réttir. Ekkert samband er við geimfarið á meðan á framhjáfluginu stendur og er ekki búist við því að merki berist frá því fyrr en rúmlega eitt í nótt að íslenskum tíma.

Á blaðamannafundi bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA í eðlisfræðideild John Hopskins-háskóla í Maryland hádeginu sagði Stern að geimfarið héldi áfram að afla gagna næsta hálfa sólahringinn. Í nótt muni það síðan senda fyrsta merkið til jarðar og þá hefjist sextán mánaða tímabil þar sem gögn muni fossast til jarðar.

Myndirnar sem New Horizons hefur þegar sent sem teknar voru fyrir framhjáflugið gefa til kynna að jarðfræðileg vikni og þunnur lofthjúpur úr nitri móti yfirborð dvergreikistjörnunnar. Stern sagði að það sæist meðal annars á því hversu mikill munur væri á yfirborði Plútós og stærsta tunglsins Karons.

Yfirborð Karons virtist fornt og þakið gígum en á Plútó væru fáir loftsteinagígar sjáanlegir og yfirborðið væri misbjart. Það muni skýrast þegar frekari gögn berast hvort að ástæðan sé sú að Plútó sé enn jarðfræðilega virkur hnöttur eða hvort að það sé lofthjúpurinn sem fellur niður sem snjór þegar hnötturinn er fjærst sólu.

Sem vísindamaður sagðist Stern hins vegar vilja sjá frekari gögn, mælingar á landafræði Plútós, litmyndir, litrófsgreiningar, hitakort og myndir í hærri upplausn. Myndirnar sem New Horizons sendir á morgun komi til með að vera í tíu sinnum betri upplausn en síðasta myndin sem það sendi áður en framhjáflugið hófst.

„Við gætum ekki verið ánægðari með hvernig geimfarið hefur staðið sig og hvernig Plútókerfið hefur staðið sig,“ sagði Stern brosandi.

Eins og að sjá á eftir barninu sínu

Alice Bowman, sem hefur stjórnað leiðangri New Horizons frá upphafi, líkti tilfinningunni þegar stjórnendurnir misstu samband við geimfarið í nótt við það að sjá á eftir barninu sínu einu út í heiminn.

„Ég er ekki búin að sofa mikið. Við í leiðangursstjórninni tölum oft um geimfarið sem barn eða ungling. Við misstum sambandið í gærkvöldi og það var ekkert sem neitt okkar gat gert fyrir geimfarið þá. Aðeins treyst því að við hefðum kennt því allt sem það þyrfti að kunna. Jafnvel þó að við vissum að geimfarið myndi ekki tala við okkur þá vildum við vera hjá því á meðan það færi í gegnum þessa för. Ég er svolítið taugaóstyrk eins og maður er þegar maður sendir barnið sitt eitt út í heiminn,“ sagði Bowman.

Stern sagði að ef ekkert bili í geimfarinu hafi það næga orku til að vera starfhæft fram á 4. áratug þessarar aldar. Þannig gæti það kannað Kuiper-beltið, sem eru leifar frá myndun sólkerfis okkar, og jafnvel náð út úr sólkerfinu út í opinn geiminn þaðan sem það gæti sent gögn með næmari mælitækjum en Voyager-geimförin eru búin.

Hann var jafnframt spurður hvenær menn myndu næst heimsækja Plútó og grínaðist hann þá með að hafa unnið að smíði lendingarfars í laumi. Hann teldi hins vegar að menn ættu örugglega eftir að heimsækja dvergreikistjörnuna aftur vegna þess hversu heillandi hún væri.

Áður þyrftu menn hins vegar að leggjast yfir gögnin sem New Horizons sendir til baka til að vita hvaða spurninga mögulegt brautar- eða lendingarfar framtíðarinnar ætti að leita svara við. Þá þyrftu menn að finna tæknilegar lausnir á því hvernig þeir ætli að láta geimfar staðnæmast við Plútó án þess að ferðatíminn þangað yrði óheyrilega langur. Ástæða þess að New Horizons flýgur aðeins fram hjá Plútó á ógnarhraða er sú að gríðarlega orku þyrfti til að hægja á geimfarinu og þyngdarkraftur Plútós er svo veikur að ekki er hægt að nýta hann til þess að draga úr ferðinni.

Alice Bowman, leiðangursstjóri New Horizons.
Alice Bowman, leiðangursstjóri New Horizons. NASA
mbl.is