Sykurneysla tengist ekki kandída

Ofneysla á sykri er líklega ekki af hinu góða en …
Ofneysla á sykri er líklega ekki af hinu góða en ekkert bendir til þess að hún valdi kandídasýkingum eða óþoli.

Ósannað er að mikil sykurneysla stuðli að kandídasveppasýkingum og engar rannsóknir benda til þess að ofvöxtur sveppsins sé undirrót sjúkdóma og kvilla eins og haldið hefur verið fram. Björn Geir Leifsson, læknir, segir kandída vera gervigreiningu sem hafi verið notuð í áratugi af „þykjustulæknum“.

Töluvert hefur borið á umræðum innan heims hjálækninga hér á landi og erlendis um svonefndar kandídasveppasýkingar og að þær geti verið orsök ýmissa kvilla, þar á meðal ristilbólgna, höfuðverkja, getuleysis, skapsveiflna og brjóstsviða svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur því verið haldið fram að sykurneysla geti leitt til kandídasýkingar sem hafi aftur þessi slæmu heilsufarsáhrif.

Býr í líkömum flests fólks

Sveppategundin candida albicans er til staðar í flestum mönnum, aðallega í munni, meltingarfærum og leggöngum kvenna auk þess sem sumir hafa hann í húðinni, að því er kemur fram í svari á Vísindavefnum sem Magnús Jóhannsson, prófessor í læknisfræði, skrifar. Þar lifir hann í jafnvægi við aðrar örverur og gerir alla jafna ekki mein.

Þó að sumir telji að mikil sykurneysla stuðli að sýkingum af kandída sé það ósannað. Smábörn fái oft þrusku (sveppasýkingu) í munn, einkum ef þeim sé gefinn sykur. Sveppasýkingar af völdum kandída séu algengastar í munni (þruska), leggöngum og vélinda en þær geti komið nánast hvar sem er. Yfirleitt gangi vel að lækna sveppasýkingar með lyfjum og menn verði jafngóðir á eftir. 

„Í þröngum hópum fólks hefur því verið haldið fram að sýkingar af völdum [kandída] séu orsök margs konar sjúkdóma eða jafnvel flestra sjúkdóma. Þetta endurspeglar viðleitni þessara hópa til þess að einfalda hlutina þannig að flestir sjúkdómar eigi sér sameiginlega orsök og þar með sé hægt að finna eitt lyf eða einhver einföld ráð til að lækna alla þessa sjúkdóma. Heimurinn er hins vegar yfirleitt mun flóknari en við höldum og þessar kenningar byggja ekki á vísindalegum rökum,“ segir á Vísindavefnum.

Líður betur af breyttu mataræði

Björn Geir segir að sýkingar af völdum kandída séu ekki sérlega algengar og mjög sjaldan alvarlegar. Heilbrigðir fái aðeins vægar en oft mjög óþægilegar yfirborðssýkingar með kláða og sviða. Algengar sýkingar séu auðmeðhöndlaðar með alvöru lyfjum.

„Sveppurinn kemst ekki inn í líkamann eða blóðrásina nema eitthvað mikið sé að. Kandídasveppasýking sem nær fótfestu fyrir innan yfirborð líkamans er alltaf stórhættuleg og oft eru slíkir sjúklingar gjörgæsluþurfi,“ segir hann.

Fyrir nokkrum áratugum hafi sú hugmynd hins vegar komist á kreik að óþol fyrir kandída eða ofvöxtur á sveppnum ylli heilsufarsvandamálum. Sú hugmynd hafi lifað áfram hjá græðurum.

Fæðuráðleggingarnar sem fólki sem er „greint“ með kandídasýkingu af þessu tagi eru skotheldar að sögn Björns Geirs því fólk sem fer að ráðum náttúrulæknis eða græðara sem hættir að úða í sig brauði, víni, gosi eða nammi líði að sjálfsögðu betur, ekki vegna þess að kandídan gefi sig heldur vegna þess að það minnkar kolvetna og kalóríuofskömmtun.  

„Öllum líður einfaldlega betur sem taka sig á í mataræði,“ segir hann.

Engar rannsóknir sem studdu fullyrðingarnar

Í gein á vefnum Science Based Medicine sem Steven Novella, taugalæknir við læknaskóla Yale-háskóla skrifar kemur fram að kandída hafi orðið að grundvelli gervisjúkdómsgreininga í kjölfar útgáfu bókar árið 1986 þar sem læknir að nafni William Crook hélt því fram að tenging væri á milli ýmissa kvilla og ólþols fyrir kandída. Engar vísindalegar stoðir séu þó fyrir því fram á þennan dag og Crook hafi engar rannsóknir gert til að rökstyðja þessar fullyrðingar.

Dæmi um síður þar sem kandída er sagður orsök kvilla:

Ertu komin með candida vegna sykurfíknar?

Um gersveppaóþol af Heilsubankanum

Af vef hómópata um candida-sveppasýkingu

Candida albicans-sveppategundin.
Candida albicans-sveppategundin. Af Vísindavefnum
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert