Varð til við árekstur tveggja halastjarna

Allt frá því að geimfarið Rosetta sendi fyrstu myndirnar til jarðar af halastjörnunni 67P/Churyumov-Gerasimenko í fyrra hafa vísindamenn velt vöngum yfir hvernig hún varð svo undarleg í laginu. Nú hefur verið staðfest að hún hafi orðið til við árekstur tveggja halastjarna á litlum hraða snemma í sögu sólkerfisins.

Lögun halastjörnunnar hefur verið líkt við gúmmíönd en hún skiptist í tvo meginhluta sem eru tengdir saman af nokkurs konar hálsi. Tvær helstu kenningarnar voru þær að annað hvort hefðu tvær halastjörnur rekist saman eða að hálsinn hafi orðið til við staðbundið rof.

Evrópskir vísindamenn hafa í kjölfarið legið yfir háskerpumyndum af halastjörnunni til þess að kanna jarðlög í kjarna halastjörnunnar og komist að því að hún hafi orðið til við árekstur tveggja halastjarna sem mynduðust hvor í sínu lagi. Greint er frá niðurstöðunum í tímaritinu Nature og voru þær kynntar á evrópska reikistjörnufræðiþinginu í Nantes í gær.

Í ljós kom að samræmi var í stefnu jarðalaganna í hlutum halastjörnunnar sem náði sums staðar hundruð metra undir yfirborðið. Þá kom í ljós að jarðlögin vísuðu hver í sína áttina nærri hálsi halastjörnunnar.

„Þetta bendir til þess að lögin í höfði halastjörnunnar og líkama hafi myndast hver í sínu lagi áður en hlutarnir sameinuðust síðar. Þetta hlýtur að hafa verið árekstur á litlum hraða til þess að jarðlögin hafi haldist svo regluleg niður á það dýpi sem gögn okkar benda til,“ segir Matteo Massironi, aðalhöfundur rannsóknarinnar við Padova-háskóla á Ítalíu sem er einnig í vísindateymi OSIRIS-myndavélar Rosettu.

Frétt evrópsku geimstofnunarinnar ESA af lögun halastjörnunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert