Stofnfrumur gegn beinstökkva

Fólk sem þjáist af beinstökkva á til að brotna oft …
Fólk sem þjáist af beinstökkva á til að brotna oft á ári. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Vísindamenn hafa tilkynnt að þeir hyggist sprauta stofnfrumum úr látnum fóstrum í lifandi fóstur í von um að draga úr einkennum beinstökkva (osteogenesis imperfecta). Eitt af 25.000 börnum þjáist af sjúkdómnum, sem getur verið lífshættulegur og m.a. orsakað fjölda beinbrota við fæðingu.

Sjúkdómurinn hefur einnig áhrif á vöxt og heyrn, en hann má rekja til villu í erfðaefni sjúklingsins, sem veldur því að kollagen er annað hvort af lélegum gæðum eða ekki til staðar. Vonir standa til að stofnfrumurnar muni leiða til þess að líkaminn fái „réttar leiðbeiningar“ um beinvöxt.

Um er að ræða klínískar rannsóknir sem verða leiddar af Karolinska Institute í Svíþjóð og Great Ormond Street Hospital í Bretlandi.

Lyn Chitty, prófessor við síðarnefndu stofnunina, segir að markmiðið sé að bera kennsl á þau tilfelli þar sem stofnfrumur gætu mögulega dregið úr áhrifum beinstökkva og fjölda brota, en rannsóknin mun ná til fimmtán barna sem munu fá meðferð í móðurkviði og eftir fæðingu.

Önnur fimmtán munu tilheyra viðmiðunarhópi sem mun aðeins fá meðferð eftir fæðingu.

Í frétt BBC um málið er sagt frá Adam Reynolds frá Farnborough í Hampshire, sem fæddist handleggsbrotinn og með sprungu í hryggnum. Hann telur sig hafa brotnað 30-40 sinnum á lífsleiðinni, en brotin eru afar lengi að gróa.

„Daglegt líf er erfitt. Ef einhver rekur tána í borð segja þeir „Ái!“; í mínu tilfelli er það „Braut ég tána?“,“ segir Reynolds.

Dr. Dusko Ilic, sérfræðingur í stofnfrumuvísindum við King's College London, fagnar rannsóknunum en varar við því að erfitt gæti reynst að meta árangur þeirra þar sem sjúkdómurinn sé ólíkur milli sjúklinga.

Rannsóknirnar hefjast í janúar næstkomandi.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá BBC.

Uppfært kl. 14.26:

Fréttin hefur verið uppfærð til að árétta að sjúkdómurinn getur verið lífshættulegur en er það ekki í öllum tilvikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert