Jörðin einn fyrsti lífvænlegi hnötturinn

Teikning listamanns af reikistjörnum sem líkjast jörðinni og munu myndast …
Teikning listamanns af reikistjörnum sem líkjast jörðinni og munu myndast á næstu biljónum ára í alheiminum. NASA, ESA, og G. Bacon (STScI)

Þegar sólkerfið okkar varð til fyrir um 4,6 milljörðum ára voru aðeins um 8% allra mögulegra lífvænlegra hnatta sem munu myndast í alheiminum til. Jörðin var þannig einn ef fyrstu lífvænlegu stöðum alheimsins, samkvæmt niðurstöðum nýrrar kennilegrar rannsóknar. Meirihluti lífvænlegra reikistjarna eigi enn eftir að myndast.

Þetta mat byggist á gögnum sem Hubble- og Kepler-geimsjónaukarnir hafa aflað um þróun alheimsins í gegnum tíðina. Þær athuganir benda til þess að alheimurinn hafi myndað nýjar stjörnur af miklum móð fyrir um tíu milljörðum ára. Við það hafi hins vegar lítið gengið á birgðir hans af vetnis- og helíumgasi, aðalbyggingarefni stjarna alheimsins. Nú gengur stjörnumyndunin mun hægar en svo mikið efni er eftir að stjörnur og reikistjörnur munu halda áfram að myndast lengi enn. Ekki er talið að síðasta stjarnan í alheiminum muni kulna fyrr en eftir um hundrað biljón (milljón milljón) ár. 

Vísindamenn áætla að um einn milljarður reikistjarna á stærð við jörðina gangi um stjörnur í Vetrarbrautinni. Fjöldi reikistjarna sem líkjast jörðinni í alheiminum gæti því verið gríðarlegur enda eru um hundrað milljarðar vetrarbrauta í hinum sýnilega alheimi. Talið er að reikistjörnur framtíðarinnar myndist helst í risavöxnum vetrarbrautarþyrpingum eða dvergvetrarbrautum þar sem enn er töluvert magn af efni sem þær geta myndast úr. Í Vetrarbrautinni okkar hafi mun meira af efni þegar verið notað.

„Aðalmarkmið okkar var að skilja hlutskipti jarðarinnar í samhengi við afganginn af alheiminum. Í samanburði við allar þær reikistjörnur sem munu nokkru sinni myndast í alheiminum er jörðin nokkuð snemma á ferðinni,“ segir Peter Behroozi, aðalhöfundur rannsóknarinnar hjá Geimsjónaukavísindastofnuninni í Baltimore sem stjórnar vísindastörfum Hubble.

Kostirnir fyrir mannkynið að hafa orðið til á reikistjörnu svo snemma í sögu alheimsins er möguleikinn að geta notað stóra geimsjónauka eins og Hubble og Kepler til þess að rekja söguna aftur til Miklahvells. Að um biljón árum liðnum verða ummerki um Miklahvell nær algerlega horfin vegna útþenslu alheimsins.

Þannig munu siðmenningar sem þróast í fjarlægri framtíð alheimsins ekki hafa möguleika á að greina hvernig og hvort alheimurinn hafi átt sér upphaf og hvernig hann þróaðist.

Frétt á vef NASA um rannsóknina

mbl.is