Ofsafengin örlög stjörnupars

Teikning listamanns af því hvernig tvístirniskerfið VFTS 352 gæti litið ...
Teikning listamanns af því hvernig tvístirniskerfið VFTS 352 gæti litið út. Stjörnurnar eru svo heitar að þær gefa frá sér skært bláhvítt ljós. ESO/L. Calçada

Sjaldgæft er að finna tvístirni þar sem stjörnurnar eru svo nálægt hvor annarri að þær snertast en stjörnufræðingar hafa nú fundið heitasta og massamesta snertitvístirnið hingað til. Því er spáð ofsafengnum örlögum en stjörnurnar munu annað hvort renna saman í eina risastjörnu eða verða að tvöföldu svartholi. 

Tvístirnið VFTS 352 er í um 160.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni í Tarantúluþokunni í Stóra-Magellansskýinu. Það svæði er virkasti fæðingarstaður stjarna í nágrenni okkar í alheiminum, að því er kemur fram í frétt á vef evrópsku stjörnustöðvarinnar á Suðurhveli (ESO).

VFTS 352 fannst með VLT-sjónaukanum en tvístirnið samanstendur af tveimur mjög heitum, björtum og efnismiklum stjörnum sem snúast hvor um aðra á rétt rúmlega einum sólarhring. Aðeins tólf milljón kílómetrar skilja stjörnurnar að.

Þær svo þétt saman að yfirborð þeirra snertast og brú hefur myndast milli þeirra. VFTS 352 er ekki aðeins efnismesta kerfi sinnar tegundar — samanlagður massi þeirra er 57 faldur massi sólar — heldur geymir það heitustu stjörnurnar í tvístirnakerfi sem fundist hefur en báðar eru meira en 40.000°C heitar.

Gæti endað sem þétt svartholakerfi

Ofsafengnar stjörnur eins og í VFTS 352 leika lykilhlutverk í þróun vetrarbrauta og eru taldar meginuppspretta frumefna á borð við súrefni. Slík tvístirni tengjast líka framandi fyrirbærum eins og „vampírustjörnum“ þar sem minni stjarnan í kerfi sýgur efni frá stærri nágranna sínum.

Í tilviki VFTS 352 eru báðar stjörnurnar hins vegar næstum jafn stórar. Þar af leiðandi deila stjörnurnar efni í stað þess að önnur sjúgi efni frá hinni. Áætlað er að stjörnurnar í VFTS 352 deili um 30% af efnismassa sínum.

Kerfi af þessu tagi eru afar sjaldgæf því þetta stig í ævi þeirra er stutt. Því er erfitt að grípa þær glóðvolgar að verki. Þar sem stjörnurnar eru svo þéttar telja stjörnufræðingar að sterkir flóðkraftar leiði til aukinnar blöndunnar efnis í iðrum stjarnanna.

Stjörnufræðingar spá því að VFTS 352 bíði ofsafengin örlög á einn eða annan hátt. Fyrri möguleikinn er sá að stjörnurnar tvær gætu runnið saman og myndað eina risastjörnu sem snýst mjög hratt og væri mjög segulmögnuð.

„Haldi hún áfram að snúast mjög hratt gæti hún endað ævina sem langur gammablossi, ein orkumesta sprenging í alheiminum,“ segir Hugues Sana við Leuven-háskóla í Belgíu sem hafði umsjón með rannsókninni.

Hinn möguleikinn er sá að „stjörnurnar gætu haldist þéttar án þess að VFTS 353 renni saman í eina stjörnu. Það yrði til þess að stjörnurnar færu allt aðra þróunarleið en hefðbundnar spár um þróun stjarna gera ráð fyrir. Báðar myndu þá sennilega enda ævina sem sprengistjörnur og mynda þétt kerfi tveggja svarthola. Slíkt fyrirbæri yrði sterk uppspretta þyngdarbylgna,“ útskýrir Selma de Minka, kennilegur stjarneðlisfræðingur við Amsterdamháskóla.

Frétt á íslensku á vef ESO um tvístirnið

Staðsetning tvístirnisins í Stóra-Magellanskýinu.
Staðsetning tvístirnisins í Stóra-Magellanskýinu. ESO/M.-R. Cioni/VISTA Magellanic Cloud survey.
mbl.is
Húsaviðgerðir
https://www.husco.is/...
Sumarhús- Gestahús- Breytingar
Sumarhús - Gestahús - Breytingar ? Framleiðum stórglæsileg sumarhús í ýmsum stær...
Vor í Tungunum, Eyjasól ehf.
Nú er að skella sér í sumarbústað um helgina og eða næstu... Rúm fyrir 5-6. Tak...
Nudd fyrir vellíðan og slökun
LÁTTU DEKRA VIÐ ÞIG MEÐ AFSLAPPANDI NUDDI. HEIT OLIA OG STEINAR. Allir með ...