Fylgstu með geimgöngu í beinni

Kjell Lindgren utan við Alþjóðlegu geimstöðina við upphaf geimgöngunnar í ...
Kjell Lindgren utan við Alþjóðlegu geimstöðina við upphaf geimgöngunnar í dag. AFP

Tveir bandarískir geimfarar svífa nú um geiminn í rúmlega fjögur hundruð kílómetra hæð yfir jörðinni. Þeir héldu í geimgöngu til að sinna viðhaldi á Alþjóðlegu geimstöðinni og stendur hún yfir í sex og hálfa klukkustund. Hægt er að fylgjast með geimgöngunni í beinni útsendingu á vef bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA.

Þeir Scott Kelly og Kjell Lindgren munu meðal annars koma fyrir hitahlíf á öreindamælitæki sem hefur verið utan á geimstöðinni frá árinu 2011. Þetta er fyrsta geimganga beggja geimfaranna en þeir munu endurtaka leikinn á föstudag í næstu viku.

Hægt er að fylgjast með göngunni í beinni útsendingu á vefsíðu og Youtube-rás NASA frá og með klukkan þrjú að íslenskum tíma.

mbl.is