Flaug í gegnum gosstróka ísveraldar

Frá aðflugi Cassini að Enkeladusi, úr um 96.000 kílómetra fjarlægð
Frá aðflugi Cassini að Enkeladusi, úr um 96.000 kílómetra fjarlægð NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute

Nærmyndir af yfirborði ístunglsins Enkeladusar eru fyrstu gögnin sem borist hafa til jarðar eftir flug geimfarsins Cassini fram hjá því í síðustu viku. Farið fór næst í um fimmtíu kílómetra fjarlægð frá yfirborðinu og gerði mælingar á efnisstrókum sem standa upp úr ísskorpunni og menn telja koma frá hafi undir henni.

Vonir standa til þess að Cassini geti varpað ljósi á efnasamsetningu strókanna sem gætu átt uppruna sinn í hafi fljótandi vatns undir ísskorpunni og hvort að það gæti mögulega staðið undir einhvers konar lífi. Talið er að flóðkraftar Satúrnusar og tunglsins Dione hiti innviði Enkeladusar nægilega mikið til að vatn geti verið til staðar á fljótandi formi undir yfirborðinu. Það gerir ístunglið að einni mest spennandi veröld sólkerfisins fyrir frekari rannsóknir.

Eftir að Cassini hafði flogið fram hjá Enkeladusi smellti farið …
Eftir að Cassini hafði flogið fram hjá Enkeladusi smellti farið af þessari tignarlegu mynd af tunglinu og hringjum Satúrnusar. NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute

Cassini flaug yfir suðurpólsvæði Enkeladusar á miðvikudag og fór næst í um fimmtíu kílómetra fjarlægð frá því. Það er það næsta sem geimfarið hefur farið Enkeladusi. Myndirnar og gögn frá gas- og rykmælum geimfarsins hafa þegar borist til jarðar en gert er ráð fyrir að það taki nokkrar vikur að fara yfir gögnin, að því er kemur fram í frétt á vef JPL hjá NASA.

Geimfarið mun fljúga nálægt Enkeladusi í síðasta skipti 19. desember en Cassini hefur verið við Satúrnus frá árinu 2004. Þá stendur til að mæla hitann sem býr í innviðum ísveraldarinnar.

Strókur stígur upp frá yfirborði Enkeladusar þegar Cassini flaug rétt …
Strókur stígur upp frá yfirborði Enkeladusar þegar Cassini flaug rétt fram hjá yfirborðinu. NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute

Áætlað er að leiðangrinum ljúki árið 2017 en þá verður Cassini flogið á milli Satúrnusar og hringja hans áður en geimfarinu verður steypt ofan í lofthjúp reikistjörnunnar þar sem það mun tortímast undan kremjandi þrýstingi og hita. Það er meðal annars gert til að tryggja að leifar geimfarsins mengi ekki tungl Satúrnusar eins og Enkeladus sem gætu hugsanlega hýst líf.

Fleiri óunnar hrámyndir úr framhjáflugi Cassini hjá Enkeladusi verða birtar á vefsíðu Cassini-leiðangursins hjá JPL á næstunni.

Frétt á vef JPL um framhjáflugið

Frétt Space.com

Grein á Stjörnufræðivefnum um Cassini-leiðangurinn

Gárur í ísskorpu Enkeladusar. Myndin var tekin þegar Cassini var …
Gárur í ísskorpu Enkeladusar. Myndin var tekin þegar Cassini var í aðeins 124 kílómetra fjarlægð frá suðurhveli tunglsins. NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute
Hrjúft yfirborð Enkeladusar eins og það kom fyrir sjónir Cassini …
Hrjúft yfirborð Enkeladusar eins og það kom fyrir sjónir Cassini úr um 61.000 kílómetra fjarlægð. NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert