Telja sig sjá íseldfjöll

Mikil dæld er á tindi Wright-fjalls sem trónir um fjóra …
Mikil dæld er á tindi Wright-fjalls sem trónir um fjóra kílómetra yfir yfirborði Plútós. Það virðist bera öll merki um að vera nokkurs konar eldfjall sem gýs ís. NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Southwest Research Institut

Kort af yfirborði Plútós sem gerð hafa verið með gögnum New Horizons-geimfarsins virðast sýna tvö stór fjöll sem vísindamenn telja að geti verið íseldfjöll sem hafi myndast þegar ís gýs undan yfirborði dvergreikistjörnunnar. Fyrirbærin séu undarleg og eldfjöll séu minnst undarlega kenningin um tilurð þeirra.

Tindar fjallanna tveggja, sem eru hvort um sig meira en 160 kílómetrar að breidd og meira en fjórir kílómetrar að hæð, eru með djúpar dældir í miðjunni. Slíkt er yfirleitt einkenni eldfjalla á kunnuglegri slóðum í sólkerfinu.

„Hvað sem þau eru þá eru þau sannarlega skrýtin og eldfjöll eru kannski minnst skrýtna kenningin á þessum tímapunkti,“ sagði Oliver White, vísindamaður við New Horizons-leiðangurinn á 47. ársfundi reikistjörnudeildar bandaríska stjörnufræðifélagsins í gær.

Wright- og Piccard-fjall, eins og þau hafa verið nefnd óformlega, gjósa þannig ekki hrauni og ösku eins og á jörðinni heldur vatnsís, köfnunarefni, ammoníaki eða metani. Vísindamennirnir telja að hiti af völdum geislavirkrar hrörnunar í kjarna Plútós valdi kvikuhreyfingum í ísnum eins og gerist á jörðinni með bráðið berg. Það gæti rennt stoðum undir hugmyndir um að haf fljótandi vatns gæti verið að finna undir ísilögðu yfirborði hnattarins.

Þekkt er að gríðarlegir flóðkraftar sem gasrisarnir Júpíter og Satúrnus beita fylgitungl sín valda jarðvikni á hnöttum eins og Íó og Enkeladusi sem gjósa hrauni annars vegar og ísstrókum hins vegar. Slíkt á sér þó ekki stað á Plútó og slík jarðvirkni hefur ekki áður sést svo utarlega í sólkerfinu.

„Innri geislavirkur hitagjafi er eins og sakir standa eini hitagjafinn sem okkur dettur í hug þar sem að hitun af völdum flóðkrafta hefur líklega ekki haft mikil áhrif á Plútó,“ sagði White.

Frétt Spaceflight Now

mbl.is