Jörðin appelsínugul í fortíðinni

Mynd Cassini af tunglinu Títan árið 2005. Tunglið er hjúpað …
Mynd Cassini af tunglinu Títan árið 2005. Tunglið er hjúpað appelsínugulum metanlofthjúp. Jörðin gæti hafa haft svipaðan lofthjúp fyrr í sögu sinni sem tilkominn var vegna lífvera. NASA

Einkennislitur jarðarinnar er blár en þannig hefur það ekki alltaf verið. Fyrir milljörðum ára var lofthjúpur jarðar oft appelsínugulur vegna metans sem lífverur gáfu frá sér. Vísindamenn telja að slíkir lofthjúpar utan um reikistjörnu geti hjálpað þeim að koma auga á líf á öðrum hnöttum.

Séð frá geimnum virðist jörðin eins og fölur blár punktur, eins og stjörnufræðingurinn Carl Sagan kallaði hana, vegna þess að lofthjúpurinn dreifir bláu ljósi sólarinnar og vegna úthafanna. Fyrr í sögu hennar var efnasamsetning lofthjúpsins hins vegar önnur og blái liturinn því hvergi sjáanlegur.

Í nýrri rannsókn vísindamanna við Háskólann í Washington í Bandaríkjunum var jörðin skoðuð eins og hún var fyrir um 2,5 til 4 milljörðum ára. Þeir telja að loftmistur utan um fjarreikistjörnur, eins og það sem hjúpaði jörðina á þessum tíma, geti verið merki um að þar sé líf að finna. Kenningin var kynnt á ársþingi reikistjörnufræðideildar bandaríska stjörnufræðifélagsins á dögunum.

Rannsóknin byggist á jarðfræðilegum gögnum sem benda til þess að á þessum tíma hafi jörðin verið hjúpuð fölappelsínugulri og lífrænni þoku. Liturinn kom frá ljósi sem braut niður metansameindir í andrúmsloftinu í flóknari sameindir vetnis og kolefnis, svonefnd kolvatnsefni. Metanið hafi annað hvort komið frá örverum, vegna jarðfræðilegrar virkni eða blöndu þessara tveggja þátta. Þannig er þekkt að metanlofthjúpur getur myndast utan um hnetti án aðkomu lífvera eins og á Títan, tungli Satúrnusar.

Vísindamennirnir ályktuðu hins vegar að ólíklegt væri að lofthjúpur jarðarinnar á þessum tíma hafi myndast án lífvera. Því gæti lofthjúpur af þessu tagi þar sem styrkur koltvísýrings er svipaður og í lofthjúpi jarðar utan um fjarreikistjörnur verið fingrafar lífs þar. 

Slíkur lofthjúpur hefði leitt til meðalhitastigs á jörðinni sem gæti hentað lífverum samkvæmt líkönum vísindamannanna. Þokan hefði líka varið yfirborðið fyrir útfjólubláum geislum sólarinnar fyrir tilkomu súrefnis og ósons í lofthjúpnum sem gegna því hlutverki í dag.

Frétt á vefnum Phys.org

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert