Bólusetning dregur úr lungnabólgu og eyrnabólgu hjá börnum

AFP

Vísindamenn á Landspítala og við Háskóla Íslands könnuðu áhrif bólusetningarinnar hjá börnum sem leituðu til Barnaspítala Hringsins og komust að því að eftir að almenn bólusetning hófst hér á landi lækkaði tíðni eyrnabólgu hjá börnum um 24% og lungnabólgu um 23%.

„Þetta eru mjög ánægjuleg tíðindi fyrir íslensk börn og eru niðurstöðurnar samhljóða niðurstöðum annarra landa um áhrif bólusetninga gegn pneumókokkum. Fleiri niðurstaðna er að vænta frá þessum rannsóknarhópi, m.a. um hvort bólusetningin dragi úr notkun sýklalyfja og fækki sýklalyfjaónæmum bakteríum,“ segir í frétt á vef landlæknis.

Fjallað verður um rannsóknina, sem segir frá áhrifum bólusetningar á tíðni lungnabólgu og eyrnabólgu hjá börnum hér á landi, í nýrri grein sem verður birt vísindaritinu „The Pediatric Infectious Disease Journal“ á næstunni.

Þá segir á vef landlæknis, að sóttvarnalæknir hafi áður greint frá því að frá því að bólusetningin hafi nánast útrýmt alvarlegum pneumókokkasýkingum hjá börnum (blóðsýkingum og heilahimnubólgu) og fækkað alvarlegum sýkingum hjá fullorðnum verulega.

Almenn bólusetning með bóluefni gegn sýkingum af völdum pneumókokkum hófst hér á landi á árinu 2011 með bóluefninu Synflorix sem framleitt er af lyfjaframleiðandanum GlaxoSmithKline (GSK). Hvert barn fær þrjár sprautur við 3, 5 og 12 mánaða aldur og hefur þátttakan verið um og yfir 90%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert