„Geimverubyggingar“ líklega halastjörnur

Teikning af stjörnu sem brot úr halastjörnu skyggja á.
Teikning af stjörnu sem brot úr halastjörnu skyggja á. NASA/JPL-Caltech

Stjarnan KIC 8462852 komst í heimsfréttirnar í haust þegar þeirri kenningu var varpað fram að risavaxnar byggingar geimvera gengu á braut um hana. Frekari rannsóknir á stjörnunni benda til þess að í raun hafi það verið hópur halastjarna sem vísindamenn komu auga á með Kepler-geimsjónaukanum.

Þegar vísindamenn greindu frá óvenjulegum mælingum á stjörnunni sem komu fram við leit að fjarreikistjörnum með Kepler-sjónaukanum hljóp ímyndunaraflið með suma þeirra, og fjölmiðla, í gönur. Sjónaukinn hafði greint breytingar á birtustigi stjörnunnar sem höfðu hvergi sést annars staðar. Svo virtist sem að klasi misstórra fyrirbæra gengi á braut um stjörnuna.

Líklegustu kenningarnar sem voru settar fram strax í upphafi voru á þá leið að þar væri á ferð leifar reikistjörnu sem hefði splundrast við árekstur við annað fyrirbæri í þessu fjarlæga sólkerfi eða halastjörnur sem þyngdarkraftur stjörnunnar hefði rifið í sundur. Langsóttasta skýringin, og sú sem hlaut mesta athygli fjölmiðla, var hins vegar sú að geimverur hefðu komið fyrir risavöxnum byggingum á braut um stjörnuna, mögulega til að framleiða orku.

Minnir á uppgötvun tifstjarna

Kepler-sjónaukinn tekur myndir í sýnilegu ljósi. Til þess að komast að raun um hvort að fyrirbærið á braut um KIC 8462852 gæti verið leifar reikistjörnu notuðu vísindamenn gögn frá Spitzer-geimsjónaukanum en hann gerir rannsóknir í innrauðu ljósi. Hefði árekstur orðið við reikistjörnu ættu merki að vera um það í formi innrauðrar geislunar frá glóandi leifunum.

Spitzer fann hins vegar engin merki um verulega innrauða geislun við stjörnuna. Því telja vísindamenn nú að líklegasta skýringin á fyrirbærinu sé kaldar halastjörnur. Mögulegt er talið að hópur þeirra gangi á langri og sérkennilegri braut um stjörnuna sem hafi valdið óvenjulegum breytingum á birtu stjörnunnar séð frá jörðinni.

Frekari rannsóknar er hins vegar þörf til að skera úr um orsakir fyrirbærisins, að sögn Massimo Marengo frá Ríkisháskóla Iowa í Ames sem hefur birt grein um niðurstöður sínar sem birtist í Astrophysical Journal Letters.

„Þetta er mjög skrýtin stjarna. Hún minnir mig á þegar við uppgötvuðum fyrst tifstjörnur. Þær gáfu frá sér undarleg merki sem enginn hafði séð áður og sú fyrsta sem var uppgötvuð var nefnd LGM-1 eftir „litlum grænum mönnum“,“ segir Marengo.

Merkin frá LGM-1 reyndust eiga sér fullkomlega náttúrulegar skýringar.

„Við vitum kannski ekki ennþá hvað er í gangi í kringum þessa stjörnu en það er það sem gerir hana svo áhugaverða,“ segir Marengo.

Frétt á vef NASA um rannsóknina

Fyrri frétt mbl.is: Geimverur neðstar á blaði

Teikning af Spitzer-geimsjónaukanum.
Teikning af Spitzer-geimsjónaukanum. NASA/JPL-Caltech
mbl.is
Jessenius Faculty
Jessenius Faculty of Medicine í Martin Slóvakíu heldur inntökupróf í læknisfræði...
Kisudagurinn í Kattholti 1.júní n.k. kl.12
Haldinn verður markaður til styrktar athvarfinu Stangarhyl 2, 110 Rvík og verður...
Nudd Nudd Nudd
Nudd Nudd Nudd. Relaxing massage downtown Akureyri. S. 7660348, Alina...
LOFTDÆLA
Til sölu loftdæla verð kr. 30.000. Upplýsingar í síma 6990930...