Sjóræningi grafinn á skólalóðinni

Leit sjóræninginn svona út?
Leit sjóræninginn svona út? Skjáskot af CNN

Beinagrind sem fannst grafin á skólalóð í Edinborg, er mögulega af sjóræningja.

Þegar gröftur vegna viðbyggingar við Victoria-barnaskólann í Newhaven, sem áður var sjávarþorp en er hluti af Edinborg, bjuggust margir við að gamall hafnargarður kæmi í ljós. En öllum að óvörum fundust fornar líkamsleifar, segir í frétt CNN. 

Samkvæmt kolefnismælingum er beinagrindin frá 16. eða 17. öld. Talið er að hún sé af karlmanni á sextugsaldri, og líklegt er að hann hafi verið sjóræningi eða annars konar glæpamaður.

Fyrir um 600 árum stóð gálgi við bryggjuna í Newhaven og var hann oft notaður til að taka meintar nornir og sjóræningja af lífi. Þar sem bein mannsins lágu í ómerktri gröf er talið að hann hafi verið líflátinn á staðnum. 

Sérfræðingur í endurgerð beinagrinda vinnur nú að því með fyrirtækinu AOC Archeology að endurgera andlit mannsins svo að börnin í skólanum geti séð hvernig hinn meinti sjóræningi leit út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert