Vegur á við 500 biljónir sóla

Vetrarbrautaþyrpingin IDCS J1426.5+3508 var meðal annars rannsökuð með Hubble-geimsjónaukanum, Keck-athugunarstöðinni ...
Vetrarbrautaþyrpingin IDCS J1426.5+3508 var meðal annars rannsökuð með Hubble-geimsjónaukanum, Keck-athugunarstöðinni á Havaí, CARMA-örbylgjusjónaukunum og Chandra-röntgensjónaukanum. NASA/CXC/Univ of Missouri/M.Brodwin et al; NASA/STScI; JPL/CalTech

Gríðarlega massamikil vetrarbrautaþyrping í um tíu milljarða ljósára fjarlægð frá jörðinni vegur um það bil eins mikið og 500 biljónir (milljón milljónir) sóla. Þyrpingin er frá tíma þegar aldur alheims var aðeins fjórðungur af núverandi aldri hans. Hún hjálpar vísindamönnum að skilja betur hvernig slík fyrirbæri urðu fyrst til. 

Vetrarbrautaþyrpingin nefnist IDCS J1426.5+3508 og er sú stærsta sem stjörnufræðingar hafa fundið svo snemma í sögu alheimsins. Hún var fyrst uppgötvuð með Spitzer-geimsjónaukanum árið 2012 en nokkur af öflugustu mælitækjum heims hafa síðan verið notuð til þess að afla frekari upplýsinga um hana.

Um 90% massa þyrpingarinnar eru talin vera svonefnt hulduefni. Vetrarbrautaþyrpingar eru stærstu fyrirbæri alheimsins sem þyngdarkrafturinn heldur saman. Vísindamenn telja að myndun þeirra ætti að taka milljarða ára vegna þess hversu umfangsmiklar þær eru. IDCS 1426 er hins vegar frá þeim tíma þegar alheimurinn var aðeins 3,8 milljarða ára gamall.

Reyna á þolmörk kenninga með uppgötvuninni

„Tilvist þessarar risavöxnu vetrarbrautaþyrpingar frá því snemma í sögu alheimsins raskar ekki núverandi skilningi okkar á heimsfræðinni. Hún gefur okkur hins vegar frekari upplýsingar til að vinna með eftir því sem við fínpússum líkönin okkar,“ segir Anthony Gonzalez frá Flórídaháskóla sem er jafnframt meðhöfundur nýrrar rannsóknar á þyrpingunni.

Vísbendingar um aðrar vetrarbrautaþyrpingar svo snemma í sögu alheimsins eru vissulega til en engin þeirra er eins massamikil og IDCS 1426, að því er kemur fram í frétt á vef bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA.

„Við erum virkilega að reyna á þolmörkin með þessari uppgötvun. Sem eitt fyrsta risavaxna fyrirbærið til að myndast í alheiminum þá setur þessi þyrping há viðmið fyrir kenningar sem leitast eftir að skýra hvernig þyrpingar og vetrarbrautir þróast,“ segir Mark Browdin frá Missouri-háskóla sem leiddi rannsóknina.

Frétt um þyrpinguna á vef NASA

mbl.is