Kanna björtustu sprengistjörnu sem sést hefur

Sprengistjörnuleifarnar G292.0+1.8. Massamiklar stjörnur enda lífdaga sína sem sprengistjörnur sem …
Sprengistjörnuleifarnar G292.0+1.8. Massamiklar stjörnur enda lífdaga sína sem sprengistjörnur sem varpa frá sér ytri lögum sínum út í geiminn. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. NASA/CXC/SAO

Stjörnufræðingar brjóta nú heilann yfir fyrirbæri sem gæti verið bjartasta sprengistjarna sem nokkru sinni sést hefur. Sprengistjarnan skein bjartar en 570 milljarðar sóla og var um hundrað sinnum bjartari en hefðbundnar sprengistjörnur. Orsökin gæti verið fágæt segulstjarna eða stjarna sem endaði í maga risasvarthols.

Sprengingin sást í júní árið 2015 og fékk nafnið ASASSN-15lh. Greint var frá rannsóknunum á henni í tímaritinu Nature í gær. Sprengistjörnur af þessari stærðargráðu eru taldar um þúsund sinnum fágætari en hefðbundnar sprengistjörnur.

Subo Dong, stjörnufræðingur við Kavli-stjörnufræði- og stjarneðlisfræðistofnunina við Beijing-háskóla sem fann fyrirbærið, segir sprenginguna reyna á allar kenningar manna um sprengistjörnur og hvaða drífur áfram ofurbjartar sprengistjörnur.

Gæti verið stjarna sem risasvarthol reif í sundur

Sprengistjarnan tilheyrir flokki ofurbjartra sprengistjarna sem eru vetnissnauðar. Talið hefur verið að slíkar sprengistjörnur séu knúnar áfram af svonefndum segulstjörnum, segulmögnuðustu fyrirbærum alheimsins, sem verða eftir þegar sprengistjörnur varpa frá sér ytri efnislögum sínum. Segulsvið segulstjörnunnar gefur frá sér vind sem hitar gasið sem feykist burt frá sprengistjörnunni.

ASASSN-15lh er hins vegar heitari og bjartari en aðrar vetnissnauðar ofurbjartar sprengistjörnur. Sú staðreynd fær Dong til að efast um að segulstjarna sé orsök þessarar gífurlega orkumikla blossa. Slíkar sprengingar verða einnig yfirleitt í dvergvetrarbrautum en svo virðist sem að þessi hafi átt sér stað nærri miðju vetrarbrautar sem er stærri en Vetrarbrautin okkar. Dong útilokar hins vegar ekki að sprengingin hafi átt sér stað í dvergvetrarbraut í beinni sjónlínu við stærri vetrarbrautina.

Edo Berger, sprengistjörnufræðingur við Harvard-háskóla sem tengist rannsókninni ekki, telur möguleikann fyrir hendi að sprengingin sé alls ekki sprengistjarna heldur gæti hún hafa verið afleiðing þess þegar risasvarthol reif stjörnu í sundur með þyngdarkrafti sínum.

Teymi Dong ætla að nota Hubble-geimsjónaukann til þess að grennslast nánar fyrir um vetrarbrautina sem sprengingin átti sér stað í.

Frétt Nature af sprengistjörnunni orkumiklu

Grein á Stjörnufræðivefnum um segulstjörnur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert