Bjó til nýtt lokaborð fyrir Doom

Doom var bylting í skotleikjum þegar hann kom út árið …
Doom var bylting í skotleikjum þegar hann kom út árið 1993. Skjáskot úr Doom

Skotleikurinn Doom er einn áhrifamesti tölvuleikur allra tíma og kjarni spilara heldur enn tryggð við leikinn þó að 23 ár séu síðan hann kom út. Einn höfunda leiksins hefur nú búið til nýtt borð sem valkost við lokaborð fyrsta hluta Doom og sagður hafa engu gleymt.

John Romero var einn fjögurra höfunda Doom hjá leikjaframleiðandanum id Software en hann kom einnig að gerð Wolfenstein 3D árið 1992. Hann hefur þó ekki komið nálægt leikjaseríunni frá því að hann hætti hjá fyrirtækinu árið 1996. Svo virðist sem að Romero sé að undirbúa endurkomu í hönnun fyrstu persónu skotleikja.

„Ég er að byrja á hönnun nýs skotleiks og vildi byrja á að koma mér aftur inn í borðahönnunarferlið aftur. Mér datt í hug að Doom væri góður staður til að byrja á,“ segir Romero við The Guardian.

Blaðamaður blaðsins fer fögrum orðum um borðið sem ber titilinn „Tech Gone Bad“. Því er stillt upp sem valkosti við áttunda og síðasta borð fyrsta hluta leiksins. Romero virðist engu hafa gleymt og borðið sé töluverð áskorun fyrir spilarann.

Hægt er að spila borðið í gegnum netvafra en mælt er með því að spila það í gegnum upprunalega leikinn. Forritunarkóði leiksins var gerður opinber á sínum tíma og því hafa aðdáendur hans haldið honum lifandi undanfarna áratugi með viðbætum og uppfærslum til að hægt sé að spila hann á nútímatölvum.

Í grein The Guardian er meðal annars að finna leiðbeiningar um hvernig hægt er að setja upp og spila nýja lokaborðið. 

mbl.is