Bumban burt?

„Bumbuna burt“ er lofað á heimasíðu celciusport.com sem selja magabelti á tæpar átta þúsund krónur. Sérfræðingar telja slíkt ekki bera árangur og að verið sé að plata fólk til að kaupa sér skyndilausn sem ekki virki. Markaðsstjóri Celcius hefur fulla trú á vörunni.

Komið er á markað magabelti sem á að hjálpa fólki að brenna kviðfitu og minnka bumbuna. Beltið heitir Celcius-brennslubelti og fæst í Nettó um allt land. Ekki eru neinir rafstraumar gefnir með þessu belti, eins og var í tísku fyrir einhverjum árum, heldur er þetta einfalt teygjubelti með frönskum rennilás. Fyrirtækið Celcius auglýsir á vefsíðu, facebook, instagram og twitter. Á twitter-síðu fyrirtækisins má lesa: „Þú notar brennslubeltið í ræktinni, vinnunni, göngu, golfi, jóga. Vísun á 100% árangur. Sentímetrarnir fjúka.“

Verið að plata fólk

Sigríður Einarsdóttir íþróttakennari segir að eina leiðin til að brenna kviðfitu sé með hreyfingu. Hún hefur ekki mikla trú á þessu nýja magabelti sem á að örva brennslu á magasvæði. „Þarna er verið að plata fólk. Þú getur ekki brennt fitu af einhverju einu svæði, fitan fer jafnt af líkamanum við brennslu. Það er ekki hægt að ákveða að brenna bara kviðfitu. Auglýsingin er bara það sem fólk vill heyra,“ segir Sigríður. „Ég get ekki ímyndað mér að þú getir sett á þig belti og það byrji einhver brennsla, það þarf súrefni í brunann, þú þarft að fara í þolæfingar eða eitthvað. En þeir segja að þetta virki best með hreyfingu en þá ertu komin í þolæfingar sem duga einar og sér. Hvort beltið hjálpi? Mér finnst það ólíklegt,“ segir hún.

Klassísk fitubrennsluloforð

Fannar Karvel Steindórsson íþróttafræðingur tekur í sama streng og Sigríður. „Þetta eru þessi klassísku loforð. Yfirleitt er þetta bara bjánalegt, það er verið að lofa einhverju sem stenst ekki nánari skoðun. Að lofa fitubrennslu á ákveðnu svæði stenst ekki,“ segir Fannar sem segir að eina leiðin til að losna við fitu af einum stað sé með fitusogi. Fannar segir þessi belti ekki ný af nálinni. „Svipuð belti hafa verið til mjög lengi en hafa verið seld fyrir fólk með bakvandamál. Það veitir stuðning og eykur hitann á bakinu. En ef þú vilt auka svitamyndun geturðu bara klætt þig í kuldagalla. Þetta er ósköp einfalt, þetta snýst um mataræði og hreyfingu. Ef það er verið að lofa einhverju svona stóru þá er það yfirleitt kjaftæði. Ég er búinn að vera 16 ár í bransanum og hef ekki ennþá séð svona nýjungar sem standast,“ segir Fannar.

Fannar segir að það sé útilokað að beltið hjálpi til við fitubrennslu. „Hreyfingin er aðalatriðið, þú færð alveg sama árangur þótt þú notir ekki beltið og hreyfir þig bara,“ segir hann. „Þetta hjálpar mögulega bakinu en fitubrennsla? Þú getur alveg gleymt því,“ segir Fannar að lokum.

"Celcius brennslubeltið er vísun á árangur þegar magasvæðið er annars vegar. Beltið minnkar magasvæðið á heilbrigðan og þægilegan hátt. Það þrengir ekki að líkamanum, það er mjúkt og þægilegt í alla staði," segir á vef fyrirtækisins. Celsíussport.is

Virkar ótrúlega vel

Ellý Ármannsdóttir er markaðsstjóri hjá Celsíus sem flytur inn brennslubeltin. Hún segir að beltið virki vel við fitubrennslu og sé víða notað af íþróttafólki erlendis. Ellý segir að þetta sé ný vara og ekki sambærileg við eldri tegundir belta.
„Þetta er vinsælt í Ameríku og fólk hefur náð gríðarlega miklum árangri af að nota þetta. Ég persónulega hef prófað þetta og 10 sentimetrar eru farnir af mér,“ segir Ellý sem hefur notað þetta í vinnuna og göngutúra. Ellý segir að öll gagnrýni eigi rétt á sér en að hún hafi fulla trú á vörunni. „Þetta er alveg magnað og þetta er líka á viðráðanlegu verði,“ segir hún. „Það rennur af þessu svæði. Þetta er að virka.“
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert