Funheit ungstirni sem deyja fljótt

Stjörnurnar í þyrpingunni skína skært en lifa aðeins í nokkrar …
Stjörnurnar í þyrpingunni skína skært en lifa aðeins í nokkrar milljónir ára. Af Stjörnufræðivefnum

Hubble-geimsjónaukinn heldur áfram að fanga fegurð alheimsins þótt hann sé kominn til ára sinna. Á nýrri mynd sjónaukans sést þyrping einna heitustu, efnismestu og björtustu stjarna Vetrarbrautarinnar. Stjörnurnar brenna eldsneyti sínu hratt og lifa því stutt á stjarnfræðilegan mælikvarða.

Stjörnuþyrpingin nefnir Trumpler 14 og er í um 8.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni í Kjalarþokunni sem sést frá suðurhveli jarðar. Talið er að um 2.000 stjörnur séu í þyrpingunni. Sumar þeirra eru aðeins einn tíundi af massa sólarinnar en aðrar margfalt massameiri.

Trumpler 14 er eitt stærsta safn ungra og massamikilla bláhvítra stjarna í Vetrarbrautinni, að því er kemur fram á Stjörnufræðivefnum. Þyrpingin er aðeins um 500.000 ára gömul en til samanburðar er Sjöstirnið, sem er ein þekktasta stjörnuþyrpingin á næturhimninum, um 115 milljón ára gömul.

Stjörnurnar í þyrpingunni brenna vetniseldsneyti sínu hratt og endast aðeins í nokkrar milljónir ára áður en þær enda daga sína sem sprengistjörnur. Til samanburðar er sólin okkar um 4,6 milljarða ára gömul.

Í Trumpler 14 er ennfremur að finna eina skærustu og heitustu stjörnu Vetrarbrautarinnar, HD 93129Aa. Hún er tvístirni en stærri og bjartari stjarnan í því er meira en tveimur milljón sinnum skærari en sólin og áttatíu sinnum massameiri. Hitinn við yfirborð hennar er meira en 50.000°C.

Frétt á Stjörnufræðivefnum um mynd Hubble af Trumpler 14

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert