Ræktuðu einhverfa apa

Makakíapi af tegundinni macaca radiata.
Makakíapi af tegundinni macaca radiata. Wikipedia/Shantanu Kuveskar

Kínverskir vísindamenn hafa ræktað apa með gen sem talið er valda einhverfu og sýna sömu einkenni einhverfu og menn. Vonast vísindamennirnir til að rannsóknir þeirra muni gera þeim kleift að þróa meðferðarúrræði.

Um er að ræða makakíapa sem vísindamennirnir segja sýna einkenni á borð við áráttukennda hegðun, kvíða og takmarkaða samskiptahæfileika. Þetta þýðir, að sögn vísindamannanna, að hægt er að nota dýrin til að rannsaka orsakir og mögulegar meðferðir við einhverfu.

Einhverfa er skilgreind sem þroskaröskun en fram til þessa hafa vísindamenn notast við mýs við rannsóknir sínar. Mýs eru hins vegar afar ólíkar mönnum að flestu leiti og því voru fyrrnefndir apar ræktaðir í tilraunaglösum, þ.e. gæddir geninu MECP2, sem er talið tengjast einhverfu í mönnum.

Aparnir komu í heiminn gegnum „staðgöngumæðrun“ og fylgst var með hegðun þeirra. Í ljós kom að þeir sýndu sömu einkenni og einhverfir menn.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að heilastarfsemi þeirra sem sýna einkenni einhverfu er ólík heilastarfsemi annarra, en orsök þess liggur ekki ljós fyrir. Þó telja menn líklegt að erfðir komi þarna við sögu.

Einn umræddra tilraunaapa eignaðist afkvæmi sem erfði MECP2-genið og sýndi einnig einkenni einhverfu. Næstu skref felast m.a. í því að skanna heila apanna og freista þess að bera kennsl á frábrigði.

Aðrir vísindamenn, sem komu ekki nálægt rannsókninni, hafa fagnað áfanga kollega sinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert