Geimgenglar á ferðinni

Sergei Volkov í geimgöngu utan við Alþjóðlegu geimstöðina árið 2011.
Sergei Volkov í geimgöngu utan við Alþjóðlegu geimstöðina árið 2011. NASA

Tveir rússneskir geimfarar eru nú í geimgöngu utan við Alþjóðlegu geimstöðina á braut um jörðu. Tilgangur hennar er að koma fyrir vélbúnaði og vísindatilraunum utan á rússneska hluta stöðvarinnar. Geimgangan á að taka um fimm og hálfa klukkustund. Þetta er önnur geimganga áhafnarinnar á innan við mánuði.

Þeir Júrí Malentjsenkó og Sergei Volkov eru þrautreyndir geimfarar en þeir munu meðal annars ná í tilraun evrópsku geimstofnunarinnar ESA með líffræðileg og lífefnafræðileg sýni sem hafa verið utan á geimstöðinni til að kanna hvernig þeim reiðir af í geimnum.

Þá eiga þeir að koma fyrir tilraun sem á að reyna á þol ýmissa byggingarefna í geimnum og búnaði sem á að auðvelda geimförum hreyfingar utan við stöðina í geimgöngum í framtíðinni.

Aðeins þrjár vikur eru liðnar frá því að bandaríski geimfarinn Tim Kopra og Bretinn Tim Peake fóru í geimgöngu til að sinna viðhaldi á geimstöðinni. Hana þurfti hins vegar að stytta eftir að vatn byrjaði að safnast fyrir í hjálmi Kopra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert