Þyngdaraflsbylgjur greindar í fyrsta sinn

LIGO rannsóknastofnunin tilkynnti í dag að hún hefði greint þyngdaraflsbylgjur frá samruna tveggja svarthola fyrir 1,3 milljörðum ára. Uppgötvuninni er líkt við það að uppgötva nýja leið til þess að sjá alheiminn, líkt og framþróun í rafsegul- og röntgenbylgjum.

Stjarnvísindamenn geta nú beitt þessari nýju tækni til þess að greina atburði og fyrirbrigði í geimnum með nýjum hætti.

Spáð var fyrir um tilveru og áhrif þyngdaraflsbylgjanna sem teygja tíma og rúm í afstæðiskenningu Einsteins en tæknin til þess að mæla áhrif þeirra hefur aðeins nýlega verið þróuð. Mælingarnar fylgja nær alveg útreikningum Einstein.

Samruni svartholanna sendi frá sér meiri orku en allar stjörnur himingeimsins margfaldaðar fimmtíufalt, en á afar skömmu tímabili. Samtals var orkan á við það að þremur sólum væri splundrað í þyngdaraflsbylgjur en massi sameinaða svartholsins svaraði til samanlagðs massa þeirra fyrir, að þremur sólarmössum frádregnum. „Það er eins og við hefðum aðeins séð hafið á fullkomlega kyrrum degi og sjáum það nú í öflugum stormi,“ sagði á blaðamannafundi LIGO.

Sveiflurnar í þyngdaraflsbylgjunum frá snúningi svartholanna um hvort annað hafa átt sér stað í langan tíma en vísindamennirnir greindu á 0,2 sekúndum, á 12. september sl., tímabilið þegar svartholin runnu saman. Orkan frá bylgjunum, sem voru 1,3 milljarða ára á leiðinni til jarðar, hreyfði búnað LIGO rannsóknastöðvarinnar um 1/1000 af breidd róteindar.

LIGO stöðin sendir leysigeisla í margar áttir á sama tíma. Þegar þyngdaraflsbylgjur fara í gegnum nema stöðvarinnar trufla þær geislann svo hann fer úr takti. Útiloka þarf margs konar umhverfisáhrif til þess að framkvæma slíkar mælingar og er það eitt lykilatriðið í hönnun og byggingu rannsóknarstöðvarinnar.

Fleiri rannsóknarverkefni munu í framtíðinni greina flökt í þyngdaraflsbylgjum frá atburðum í geimnum á lengri tímaramma, allt frá þeim millisekúndum sem LIGO rannsóknarstöðin greinir nú upp í milljarða ára.

Vísindagreinin þar sem niðurstöðurnar eru kynntar.

Tvö svarthol í þyrilvetrarbrautinni NGC 1313, merkt fjólubláum lit.
Tvö svarthol í þyrilvetrarbrautinni NGC 1313, merkt fjólubláum lit. NASA/JPL-Caltech/IRAP
David Reitze, forstjóri LIGO rannsóknarstöðarinnar kynnir niðurstöðurnar.
David Reitze, forstjóri LIGO rannsóknarstöðarinnar kynnir niðurstöðurnar. AFP
Kip Thorne (h), and Rainer Weiss (v), tveir af þremur …
Kip Thorne (h), and Rainer Weiss (v), tveir af þremur stofnendum LIGO, á blaðamannafundinum í dag. AFP
Myndræn framsetning á samruna svartholanna.
Myndræn framsetning á samruna svartholanna. mynd/Physical Review Letters
mbl.is

Bloggað um fréttina