Prófa háhraðanet um loftbelg

Tilraunaloftbelgur eins og sá sem nú svífur yfir Sri Lanka.
Tilraunaloftbelgur eins og sá sem nú svífur yfir Sri Lanka. mynd/Wikipedia

Fyrsta tilraun Google með háhraðanettengingu um helíumloftbelg í háloftunum hófst á Sri Lanka í dag. Ætlunin er að bjóða upp á bætta netþjónustu í eyríkinu í samstarfi við yfirvöld og fjarskiptafyrirtæki þar. Loftbelgirnir eiga að bæta dreifigetu kerfisins og gera gagnaflutninga ódýrari.

Þrír loftbelgir verða notaðir við tilraunirnar en sá fyrsti kom inn í lofthelgi Sri Lanka í dag. Hann var sendur á loft í Suður-Ameríku. Teymi frá Google er væntanlegt til landsins í vikunni til að prófa stjórntæki loftbelgsins, afkastagetu hans og önnur tæknileg atriði. Ríkisstjórn landsins mun eiga fjórðung í félagi við Google en fjárfestir ekki beinharða fjármuni í því. Hún sér verkefninu aðeins fyrir útsendingartíðnum. Til stendur að bjóða þarlendum fjarskiptafyrirtækjum tíu prósent hlut í félaginu.

Þegar loftbelgirnir verða komnir í notkun eiga þeir að gera landsmönnum kleift að fá hraðari og áreiðanlegri nettengingu. Belgirnir eiga að svífa tvisvar sinnum hærra í heiðhvolfinu en farþegaflugvélar og varla verður hægt að koma auga á þá með berum augum frá jörðu niðri. Gert er ráð fyrir að þeir endist í 180 daga og að hægt verði að endurnýta þá.

Loftbelgjaverkefni Google nefnist Project Loon. Markmið þess er að færa jarðarbúum sem búa í dreifðari og afskekktum byggðum nettengingu sem jafnast á við 4G-net.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert