Alheimurinn dreifbýlli en talið var

Áströlsku útvarpssjónaukarnir sem voru notaðir til þess að staðsetja blossann …
Áströlsku útvarpssjónaukarnir sem voru notaðir til þess að staðsetja blossann sem varði í innan við millísekúndu. mynd/D. Smyth/CSIRO

Óútskýrðir og skammlífir blossar útvarpsbylgna utan úr geimnum hafa valdið vísindamönnum heilabrotum undanfarin ár. Nú telja þeir sig hafa náð að staðsetja upptök slíks blossa og grunar að hann megi rekja til áreksturs nifteindastjarna. Athuganirnar benda til þess að mun meira efni sé utan vetrarbrauta í alheiminum en innan.

Frá árinu 2007 hafa stjörnufræðingar greint þessa blossa sem vara aðeins í örfáar millísekúndur. Þeir hafa fundist löngu eftir að þeir birtust þegar vísindamennirnir fóru yfir gögn úr sjónaukum sínum. Nú geta ofurtölvur hins vegar farið yfir gögnin í rauntíma og numið blossana þegar þeir birtast.

Hópur stjörnufræðinga við SKA-stofnunina (Square Kilometer Array) sem hefur höfuðstöðvar í Jodrell Bank-athuganastöðinni utan við Manchester á Englandi kom auga á útvarpsbylgjublossa sem varði í innan við millísekúndu í apríl í fyrra með sjónauka í Ástralíu. Með því að beina öðrum sjónaukum í Ástralíu og Japan að svæðinu sem blossinn virtist koma frá tókst þeim að staðsetja hann í sporvöluvetrarbraut í sex milljarða ljósára fjarlægð. Í grein sem vísindamennirnir rita í Nature kemur fram að upptök blossans hafi nær örugglega verið þar.

Vetrarbrautin er tiltölulega gömul á stjarnfræðilegan mælikvarða og því myndast ekki mikið af nýjum stjörnum í henni. Af þessum sökum telja stjörnufræðingarnir líklegast að árekstur tveggja nifteindastjarna hafi valdið blossanum sem þeir námu. Hafi það verið raunin hefði áreksturinn einnig valdið þyngdarbylgjum.

Tæki til að leita að „týndu“ efni alheimsins

Samkvæmt núverandi staðallíkani heimsfræðinnar skiptist alheimurinn í um það bil 70% hulduorku, 25% hulduefni og 5% „venjulegt“ efni. Athuganir á stjörnum, vetrarbrautum og vetni í alheiminum hafa hins vegar aðeins gert vísindamönnum kleift að koma auga á um helming þess „venjulega“ efnis sem ætti að vera til staðar. Útvarpsbylgjublossarnir gætu hjálpað til við að varpa ljósi á þennan leyndardóm.

Nú þegar vísindamennirnir telja sig vita fjarlægðina til uppruna blossans geta þeir mælt hversu mikið efni hefur orðið á leið útvarpsbylgnanna til okkar. 

„Efnið sem blossinn ferðast gegnum á leið sinni til okkar hefur áhrif á útvarpsbylgjurnar, og því náðu stjörnufræðingar að staðfesta að það er miklu meira efni utan vetrarbrautanna en í þeim. Vetrarbrautir eru stórborgir alheimsins, en alheimurinn er mun dreifbýlli en þær gefa til kynna,“ segir í færslu á Facebook-síðu Stjörnufræðivefsins þar sem vakin er athygli á grein stjörnufræðinganna.

Blossana gætu vísindamenn því notað til þess að kortleggja efni alheimsins með nákvæmari hætti en hingað til hefur verið hægt. Þrjú ný tæki sem eiga að geta numið útvarpsbylgjublossa verða tekin í notkun eða eru í undirbúningi á þessu ári.

Hinir dularfullu útvarpsblossar hafa mögulega verið útskýrðir (SPOILER: þeir koma ekki frá geimverum). Þeir myndast að ö...

Posted by Stjörnufræðivefurinn on Thursday, 25 February 2016

Frétt Nature um útvarpsbylgjublossana

Frétt á vef SKA-sjónaukans

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert