Vefengja uppruna útvarpsblossa

Teikning listamanns af útvarpsbylgjublossa ná til jarðarinnar.
Teikning listamanns af útvarpsbylgjublossa ná til jarðarinnar. mynd/Jingchuan Yu, Beijing Planetarium

Nokkra athygli vakti þegar hópur stjörnufræðinga birti grein í síðustu viku um að honum hefði tekist að staðsetja uppsprettu dularfullra blossa útvarpsbylgna í fyrsta skipti. Annar hópur vísindamanna bendir hins vegar á að galla geti verið að finna á rannsókninni og hún hafi í raun numið „ropa“ risasvarthols.

Blossar útvarpsbylgna sem vara aðeins í sekúndubrot hafa valdið vísindamönnum heilabrotum frá því að þeir voru fyrst uppgötvaðir árið 2007. Stjörnufræðingar við Square Kilometer Array-rannsóknastofnunina birtu í síðustu viku grein þar sem þeir héldu því fram að þeim hafi tengist að rekja uppruna eins slíks blossa til fjarlægrar vetrarbrautar. Þeir töldu líklegustu orsök blossans árekstur nifteindastjarna.

Peter Williams, stjörnufræðingur við Harvard-Smithsonian-stjarneðlisfræðimiðstöðina, og félagar hans sáu hins vegar strax mögulegan galla við rannsókn SKA-hópsins og hafa birt óformlega grein með athugasemdum sínum. Þar kemur fram að útvarpsbylgjugeislun frá risasvartholi gæti hafa leitt stjörnufræðingana á rangar brautir.

„Þú getur komið mörgum vetrarbrautum fyrir á leitarsvæðinu þannig að möguleikarnir á að koma auga á ótengda útvarpsvirkni eru ekki svo slæmir,“ segir Wiliams við Space.com.

Horfðu fram hjá geislun risasvarthola

Útvarpsbylgjublossinn hefði hæglega getað borist í gegnum vetrarbrautina sem SKA-hópurinn telur uppruna hans og raunveruleg upptök hans verið handan hennar.

Risasvarthol er að finna í hjarta flestra vetrarbrauta í alheiminum. Í þeim virkari stafar mikil geislun frá svartholunum þegar þau drekka í sig efni. Williams segir að svo virðist sem að SKA-hópurinn hafi horft fram hjá geislun sem verði best útskýrð með risasvartholum.

Evan Keane, vísindamaður við SKA-hópinn, segir að áframhaldandi rannsóknir standi enn yfir en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um gagnrýni Williams og félaga. Mögulega verði aldrei hægt að sanna eða afsanna að blossinn hafi átt uppruna sinn í vetrarbrautinni sem hópurinn benti á.

Frétt Space.com

Fyrri frétt mbl.is: Alheimurinn dreifbýlli en talið var

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert