„Ekki félagið sem Apple var upphaflega“

Steve Wozniak, einn af stofnendum Apple.
Steve Wozniak, einn af stofnendum Apple. Mynd/Wikipedia

Steve Wozniak, einn af stofnendum Apple og hönnuður fyrstu Apple tölvunnar, segist vera nokkuð áhyggjufullur yfir þeirri vegferð sem fyrirtækið er á með Apple úrunum sem fyrirtækið kynnti í fyrra. Segir hann fyrirtækið þar fara inn á skartgripamarkaðinn í stað þess að vera í tölvubúnaði. Þetta kom fram í svari hans á samfélagsvefnum Reddit þar sem hann sat fyrir svörum frá öðrum notendum.

Wozniak var spurður hvað honum þætti um núverandi forstjóra fyrirtækisins, Tim Cook. Sagði Wozniak að Cook væri að gera góða hluti þegar kæmi að starfsfólki og viðskiptavinum Apple. Þannig væri fyrirtækið að gera góða vöru sem hjálpaði fólki við dagleg störf, en ekki að búa til vöru sem væri ekki þörf og auglýsa hana mikið.

Um neikvæðu hliðarnar sagðist hann sem fyrr segir áhyggjufullur yfir stefnunni með Apple úrið. Þrátt fyrir að elska það sjálfur sagði hann að þar væri á ferð vara sem hefði sama notagildið, en eini munurinn á 500 dala og 1.100 dala útgáfunni væri mismunandi ól á úrinu. „Þetta er ekki félagið sem Apple var upphaflega, eða félagið sem breytti heiminum,“ segir Wozniak í svarinu sínu.

Að öðru leyti sagðist hann mjög sáttur með Cook og að uppfærslur á iOS kerfinu væru alltaf jákvæðar. Hann sagðist þó sakna Steve Jobs, fyrrum forstjóra Apple, mikið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert