Rosetta á lokasprettinum

67P/Churyumov-Gerasimenko eins og halastjarnan kom fyrir sjónir Rosettu 27. mars. …
67P/Churyumov-Gerasimenko eins og halastjarnan kom fyrir sjónir Rosettu 27. mars. Þá var geimfarið í 326 km fjarlægð frá kjarna hennar. ESA/Rosetta/NavCam

Könnunarfarið Rosetta sem hefur hringsólað um halastjörnuna 67P/Churyumov-Gerasimenko í á annað ár mun ljúka leiðangri sínum með því að lenda á halastjörnunni 30. september. Vísindamenn evrópsku geimstofnunarinnar ESA tilkynntu þetta í dag en halastjarnan fjarlægist nú sólina óðfluga.

Heimsbyggðin öll fylgdist með því þegar Rosetta sleppti lendingarfarinu Philae sem sveif niður og lenti á yfirborði halastjörnunnar í nóvember árið 2014. Það var í fyrsta skiptið sem mannkynið lenti geimfari á halastjörnu. Síðan þá hefur Rosetta verið á braut um halastjörnuna og fylgst með hvernig virkni hennar hefur aukist og minnkað aftur eftir því sem hún nálgaðist sólina og fjarlægðist aftur.

Nú styttist hins vegar í leiðarlokin og verða geimförin tvö sameinuð aftur á yfirborði halastjörnunnar. Halastjarnan er nú í um 850 milljón kílómetra fjarlægð frá sólinni og er það lengra út í sólkerfið en Rosetta hefur nokkru sinni farið.

„Leiðangrinum er að ljúka vegna þess að geimfarið er sífellt að fjarlægjast sólina og jörðina. Það er á leiðinni í áttina að braut Júpíters sem veldur verulegri minnkun á sólarorku til að knýja farið og mælitæki þess. Rosetta er að nálgast lok náttúrulegs líftíma síns,“ segir í tilkynningu frá ESA.

Þar með lýkur tólf ára leiðangri Rosettu en geimfarið var tíu ár á leiðinni til halastjörnunnar. Þegar Rosetta kom að halastjörnunni í ágúst 2014 hafði hún ferðast 6,5 milljarða kílómetra.

Vísindamennirnir segja að þeir reyni að ná sem mestum rannsóknum út úr farinu áður en sólarorkan klárast. Tækifæri gefst til að ná nærmyndum af halastjörnunni í háskerpu þegar Rosettu verður stýrt niður á yfirborðið. Þegar geimfarið lendir á yfirborðinu munu fjarskipti við það glatast. Mun Rosetta svo sofna svefninum langa á hrjóstrugum faðmi halastjörnunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert