Óttinn við drægi rafbíla ofmetinn

Rannsóknin miðaði við að hefðbundnum bílum væri skipt út fyrir …
Rannsóknin miðaði við að hefðbundnum bílum væri skipt út fyrir minni rafbíl eins og Nissan Leaf.

Hægt væri að skipta út allt að 87% bandarískra bíla með ódýrum rafmagnsbílum jafnvel þó að ökumenn þeirra gætu ekki hlaðið þá yfir daginn. Þetta er niðurstaða rannsakenda við MIT-háskóla og Santa Fe-stofnunina sem könnuðu aksturshegðun Bandaríkjamanna og ýmsa þætti sem hafa áhrif á drægi rafbíla.

Margir bílaeigendur hafa efasemdir um að skipta úr bensín- eða dísilbílum yfir í umhverfisvænni rafmagnsbíla vegna ótta þeirra við drægi rafknúnu ökutækjanna. Rannsakendurnir birta hins vegar grein í tímaritinu Nature Energy sem virðist benda til þess að þessi „drægiskvíði“ sé verulega ofmetinn.

Þeir byggðu ekki aðeins á gögnum um hvernig Bandaríkjamenn keyra bílana sína heldur einnig upplýsingum um þætti eins og hitastig í mismunandi landshlutum, lengd bílferða og eldsneytisnýtni mismunandi bíla. Forsendur rannsóknarinnar er að i staðinn aki fólk hóflega verðlögðum rafbíl, Nissan Leaf árgerð 2013, og hlaði hann á nóttunni.

Hlutfallið var nánast það sama hvar sem borið var niður í Bandaríkjunum, þrátt fyrir mismunandi aðstæður á hverjum stað. Hægt væri að skipta um 84-93% hefðbundinna bíla út fyrir rafmangsbíla miðað við núverandi aksturshegðun.

Til mikils er að vinna því höfundar rannsóknarinnar reikna út að ef 90% bíla yrðu rafvæddir væri hægt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum um 30%.

Umfjöllun Washington Post um könnun MIT

mbl.is