Fundu glatað geimfar eftir tveggja ára leit

Teikning af STEREO-geimförunum sem skotið var á loft árið 2006.
Teikning af STEREO-geimförunum sem skotið var á loft árið 2006. ljósmynd/NASA

Sólarkönnunargeimfarið STEREO-B sem bandaríska geimvísindastofnunin NASA missti samband við fyrir tæpum tveimur árum fannst á sunnudag eftir þrotlausa leit. Leiðangursstjórnin vinnur nú að því að meta ástand geimfarsins og að ná aftur fullri stjórn á því.

Systurförunum STEREO-A og STEREO-B var skotið á loft árið 2006 en markmið þeirra var að gera athuganir á orkunni og eindunum sem stafa frá sólinni. Bæði geimförin fóru á braut um sólina, annað þeirra rétt fyrir innan sporbraut jarðarinnar en hitt rétt utan við hana.

Samband við STEREO-B rofnaði hins vegar 1. október árið 2014 þegar verkfræðingar voru að gera tilraunir með tímamæli sem var nokkurs konar öryggisventill ef samband rofnaði. Átti hann að endurræsa geimfarið ef það næði ekki sambandi við jörðina í 72 klukkustundir. Tilraunin var undirbúningur fyrir að geimförin færu bæði á bak við sólina frá jörðinni séð um þriggja mánaða skeið og öll samskipti myndu rofna á meðan.

Kort sem sýnir afstöðu STEREO-geimfaranna innan innra sólkerfisins.
Kort sem sýnir afstöðu STEREO-geimfaranna innan innra sólkerfisins. ljósmynd/NASA

NASA tilkynnti í gær að Deep Space Network (DSN), net loftneta og fjarskiptastöðva sem NASA rekur í Bandaríkjunum, Ástralíu og Spáni til að fylgjast með könnunarförum sínum í sólkerfinu, hefði loks náð sambandi við STEREO-B. Leiðangursstjórnin hefur undanfarið gert tilraun í hverjum mánuði til að ná sambandi með DSN og borgaði þrautseigjan sig á endanum.

Þó að geimförin tvö hafi aðeins verið hönnuð til að endast í tvö ár gengur STEREO-A enn. Eftir á að koma í ljós í hvers konar ástandi systurfarið er eftir að hafa svifið sambandslaust í geimnum í 22 mánuði.

Frétt á vef NASA um endurheimt STEREO-B

mbl.is