Vængirnir fanga athygli sérfróðra

Vængir kappakstursbíls Team Spark voru gerðir í heilu lagi og …
Vængir kappakstursbíls Team Spark voru gerðir í heilu lagi og hefur aðferðin vakið athygli sérfróðra. ljósmynd/Team Spark

Hugvitssamleg aðferð við að framleiða vængi á kappakstursbíl sem kappaksturslið íslenskra verkfræðinema þróaði hefur vakið mikla athygli, meðal annars fyrrverandi loftflæðissérfræðings Formúlu 1-liðs Ferrari. „Mér finnst enn ótrúlegt að engum hafi dottið þetta í hug áður,“ segir Sólrún Traustadóttir, sem átti hugmyndina að aðferðinni.

Team Spark hefur keppt í Formula Student fyrir hönd Háskóla Íslands undanfarin ár, en það er kappakstur þar sem verkfræðinemar hanna, smíða og keppa á svonefndum formúlubílum. Sólrún er á þriðja ári í vélaverkfræði og tók þátt í keppninni í fyrsta skipti í fyrra.

Þar fékk hún það hlutverk að smíða vængina á kappakstursbílinn úr koltrefjum, en þetta var í fyrsta skipti sem liðið hannaði og bjó til slíka vængi. Úr vöndu var hins vegar að ráða því að leiðbeiningar um smíði á vængjum fyrir kappakstursbíla voru ekki á hverju strái.

„Ég byrjaði á því að reyna að finna einhverjar upplýsingar um hvernig maður gerir svona vængi. Ég hafði aldrei komið við vængi eða koltrefjar áður. Það er rosalega lítið til á netinu og ég reyndi að finna eitthvað í bókum en það var voðalega takmarkað til,“ segir Sólrún.

Þetta reynsluleysi átti þó eftir að leiða hana að lausn sem eftir var tekið.

Styttir og einfaldar framleiðsluferlið

Vængir á kappakstursbílum eru í raun eins og öfugir flugvélavængir. Þeir eru hannaðir til þess láta loftið sem flæðir í kringum bílinn þrýsta honum niður og gefa honum meira grip í beygjum, sem aftur gerir hann hraðskreiðari. Því getur loftflæðið og hönnun vængjanna haft mikið að segja um frammistöðu kappakstursbíls og smávægilegustu breytingar geta gert gæfumuninn. 

Sólrún útskýrir að í kappakstursheiminum, þar á meðal Formúlu 1, séu vængirnir framleiddir þannig að koltrefjar séu lagðar í tvö mót og þeim síðan skeytt saman. Þessi aðferð þýði hins vegar að á samskeytunum sé mikið um misfellur og ónákvæmni. Verkfræðingar þurfi því að verja miklum tíma í að pússa þau upp.

Team Spark tókst hins vegar að smíða væng í heilu lagi og losna þannig við samskeyti og þá galla sem þeim fylgja. Með því segir Sólrún að framleiðsluferlið einfaldist og styttist til muna. Hugmyndin kom meðal annars til af því að liðið vissi ekkert hvernig aðrir framleiddu vængi og datt því hefðbundna aðferðin ekki í hug.

„Við prófuðum okkur bara áfram og hugsuðum hvort ekki væri miklu auðveldara að gera þetta í einu lagi. Við prófuðum nokkrar aðferðir til að ná þessu í einu lagi en þetta kom best út. Mér finnst ótrúlegt að það hafi engum dottið þetta í hug áður,“ segir Sólrún og hlær.

Erfiðleikinn við að heilsteypa vængina var hins vegar að fá yfirborðsaðferðina slétta og fellda. Til þess leitaði liðið til stoðtækjafyrirtækisins Össurar, sem er einn helsti styrktaraðili Team Spark. Það útvegaði nýstárlegt yfirborðsefni sem var lagt yfir koltrefjarnar og gaf yfirborðsáferðina sem liðið sóttist eftir. Sólrún segist hins vegar ekki mega segja nánar frá þeirri tækni, sem er í eigu Össurar.

Team Spark með kappakstursbílnum á Ítalíu í sumar.
Team Spark með kappakstursbílnum á Ítalíu í sumar. ljósmynd/Team Spark

Nær mælikvarða Formúlu 1

Team Spark fór með rafknúinn kappakstursbíl sinn til keppni á Englandi í sumar. Framleiðslugalli í rafmagnsíhlut olli því að bíllinn gat ekki tekið þátt en hönnun og framleiðsla vængjanna vakti mikla athygli við verkstæðin. Einn þeirra sem heilluðust af framleiðslu vængjanna var Willem Toet, sem hefur mikla reynslu af Formúlu 1-kappakstrinum, meðal annars sem yfirloftflæðisverkfræðingur Ferrari-liðsins á 10. áratugnum og síðar hjá Bar/Honda og Sauber.

Toet skrifaði grein um Team Spark-bílinn í pistli á Linkedin þar sem hann lofar framleiðsluaðferðina við vængina, sem hann kallar „Sólrúnaraðferðina“. Fyrirsögn pistilsins er „Íslenskur vængur auðmýkir F1-verkfræðing“. Þar skrifar hann að helsta áskorunin við að framleiða vængi sem þessa sé að ná réttu samspili yfirborðsáferðar og nákvæmni lögunar frambarðs vængsins.

„Hvoru tveggja næst á mælikvarða Formúlu 1 með þessari aðferð og það eru engin samskeyti á frambarðinu! Það að það væri ekkert frambarðssamskeyti sagði mér að hér væri eitthvað sérstakt á ferðinni,“ skrifar Toet, en hann lýsir einnig í pistlinum tæknilegum atriðum í útfærslu Sólrúnar og félaga.

Sólrún Traustadóttir, vélaverkfræðinemi.
Sólrún Traustadóttir, vélaverkfræðinemi. ljósmynd/Team Spark

Erfitt að ákveða hvað maður verður þegar maður verður stór

Eftir keppnina á Englandi fór Team Spark og tók þátt í kappakstri á Ítalíu og þar gekk öllu betur. Bíll liðsins endaði í tíunda sæti af þrjátíu og segir Sólrún að vængirnir hafi komið vel út við keppni.

„Við eigum náttúrulega enn smá í land með að verða fremst í þessari deild í Formula Student en þetta var fyrsta árið með vængjum og það er bara frábært að ná að hafa þá í ár. Við munum að sjálfsögðu betrumbæta þá fyrir næstu ár. Við stefnum á að verða í fremsta flokki eftir nokkur ár,“ segir Sólrún.

Undirbúningur stendur nú yfir fyrir Formula Student-keppni næsta árs, en Sólrún segist hafa heyrt af nokkrum liðum sem ætli að nota aðferðina hennar á sínum bílum og hún sé spennt að sjá útkomuna.

Sólrún segist ekki hafa haft nokkurn áhuga á bílum áður en hún tók þátt í Team Spark-verkefninu en áhuginn hafi kviknað þegar hún byrjaði að vinna að því.

„Að sjálfsögðu er ég alveg að skoða það. Það er alltaf erfitt að ákveða hvað maður ætlar að verða þegar maður verður stór,“ segir hún spurð að því hvort hún hyggi á frama í Formúlunni í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert