Noti ekki Samsung vegna eldhættu

Samsung Galaxy Note 7 getur sprungið á meðan rafhleðslu stendur.
Samsung Galaxy Note 7 getur sprungið á meðan rafhleðslu stendur. AFP

Bandaríska flugmálastjórnin (FAA) hefur ráðlagt gegn því að kveikja á eða hlaða snjallsímann Samsung Galaxy Note 7 í flugvélum vegna eldhættu samkvæmt fréttavef breska ríkisútvarpsins. Hún ráðlagði einnig gegn því að setja snjallsímann í innritaðan farangur. 

Í síðustu viku var Galaxy Note 7 tekinn úr sölu eftir aðeins 14 daga á markaði vegna galla í rafhlöðunni. Sam­sung Galaxy Note 7 var kynnt­ur í byrj­un ág­úst en hann tek­ur við af Sam­sung Galaxy Note 5. Í nokkrum tilfellum hefur rafhlaðan sprungið meðan síminn er í hleðslu eða skömmu eftir hleðsluna. Meðal annars hafa verið fluttar fréttir af því að kviknað hafi í fjölskyldubifreið vegna snjallsímans. Um tvær og hálf milljónir eintaka af Galaxy Note 7 hafa verið send víðsvegar um heim og vinnur suðurkór­eski farsíma­fram­leiðand­inn að því að endurkalla eintökin og gefa kaupendum annan Samsung-síma í staðinn. 

„Í ljósi nýliðinna atburða og mælir bandaríska flugmálastjórnin sterklega gegn því að kveikja á eða hlaða Samsung Galaxy Note 7 um borð í flugvélum og að geyma þá ekki í innrituðum farangri,“ segir í tilkynningu frá FAA. Flugfélögin Qantas og Virgin Australia hafa nú þegar tekið afstöðu gegn notkun snjallsímans um borð í flugvélum sínum.

Flugyfirvöld í Bandaríkjunum hafa áður varað við hættunni sem stafar af litíum rafhlöðum í flugi og fyrr á árinu hvatti það flugfélög til að meta áhættuna við að flytja slíkar rafhlöður í farangurshólfinu vélanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert