Fundu orsök sprengingarinnar

Þykkan svartan reyk lagði frá skotpallinum þar sem Falcon 9-eldflaugin …
Þykkan svartan reyk lagði frá skotpallinum þar sem Falcon 9-eldflaugin sprakk í loft upp. Ljósmynd/NASA

Stórt rof í helíumþrýstikerfi í efra þrepi Falcon 9-eldflaugar SpaceX leiddi til þess að hún sprakk á skotpalli í Flórída fyrr í þessum mánuði. Rannsókn stendur hins vegar enn yfir á sprengingunni en ekki liggur fyrir hvort að rofið hafi verið einkenni eða orsök hennar.  

Sprengingin átti sér stað þegar verið var að fylla eldsneyti á eldflaugina á skotpallinum á Canaveral-höfða 1. september. Ísraelsk fjarskiptagervitungl sem eldflaugin átti að skjóta á loft glataðist sömuleiðis.

Frétt mbl.is: Geimiðnaðurinn nötrar eftir sprengingu

Í yfirlýsingu sem SpaceX sendi frá sér í gær kom fram að aðeins 23 millísekúndur hafi liðið frá því að fyrsta merkið barst um að allt væri ekki með felldu þangað til að öll gögn töpuðust. Fulltrúar fyrirtækisins, bandarísku flugmálastjórnarinnar, NASA, bandaríska flughersins og sérfræðingar í geimiðnaðinum rannsaka óhappið áfram.

Nokkur helíumhylki er að finna í efra þrepi Falcon 9-eldflaugarinnar. Gasinu er beint í gegnum hreyfil eldflaugarþrepsins þar sem það hitnar áður en því er deilt inn í eldsneytistankinn til að halda uppi þrýstingi í honum eftir því sem hreyfillinn brennir fljótandi súrefninu.

Frétt Spaceflight Now af rannsókn sprengingarinnar 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert