Rosetta rakst á halastjörnuna

Verkfræðingar og vísindamenn tóku tíðindunum af endalokum Rosettu með blendnum …
Verkfræðingar og vísindamenn tóku tíðindunum af endalokum Rosettu með blendnum tilfinningum. Sumir þeirra hafa starfað við verkefnið í að verða 30 ár. AFP

Leiðangri evrópska könnunarfarsins Rosettu er lokið með árekstri þess við halastjörnuna 67P/Churyumoc-Gerasimenko. Staðfesting á árekstrinum barst til jarðar kl. 11:19 að íslenskum tíma. Þar með lauk tólf ára leiðangri sem sumir vísindamannanna hafa verið hátt í þrjátíu árum í.

Síðustu klukkustundirnar fyrir áreksturinn sendi Rosetta fjölda mynda af yfirborði halastjörnunnar í návígi og í háskerpu ásamt ýmissa annarra athugana á henni. Vísindamennirnir telja að þær athuganir sem Rosetta, og lendingarfarið Philae sem lenti á halastjörnunni í nóvember árið 2014, sendu til jarðar eigi eftir að halda þeim uppteknum næstu áratugina, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Frétt mbl.is: Halastjörnuheimsókn lýkur með árekstri

Rosetta-leiðangurinn var sögulegur en þetta var í fyrsta skipti sem manngert far komst á braut um halastjörnu og lenti á einni slíkri. Jonathan Amos, vísindafréttaritari BBC, segir að þegar samband rofnaði skyndilega við Rosettu, sem var merkið um að áreksturinn hefði átt sér stað, hafi vísindamenn í stjórnstöðinni í Darmstadt í Þýskalandi tekið því með hógværu lófaklappi og handaböndum. Það sé ekki að undra enda augnablikið súrsætt fyrir vísindamenn sem hafa jafnvel starfað við verkefnið í hátt í þrjátíu ár.

Endar í sönnum rokkanda

Ákveðið var að binda enda á leiðangurinn með því að láta Rosettu rekast á halastjörnuna frekar en að setja hana í dvala í von um að hún gæti vaknað þegar halastjarnan nálgast sólina aftur.

Matt Taylor, vísindamaður við leiðangurinn hjá evrópsku geimstofnuninni ESA, segir að ekki hafi verið á vísan á róa með að það hefði gengið eftir.

„Þetta er eins og með eina af þessum hljómsveitum frá 7. áratuginum, við vildum ekki eiga grútlélegt endurkomutónleikaferðalag. Við vildum frekar hætta núna í sönnum anda rokksins,“ segir Taylor.

Frétt á vef ESA

mbl.is