Sorphaugurinn stærri en áður var talið

Kóralrif í Nýju-Kaledóníu í Kyrrahafi.
Kóralrif í Nýju-Kaledóníu í Kyrrahafi. AFP

Gríðarstóra ruslsafnið, sem flotið hefur um í Kyrrahafinu undanfarna áratugi, er mun víðáttumeira en áður var talið. Þetta sýna loftmyndir úr könnunarferð sem ætlað er að varpa ljósi á stærð safnsins.

Í könnunarferðinni, sem farin var í breyttri C-130 Herkúles-flugvél, fannst meðal annars mikil þyrping plastúrgangs við norðurjaðar hins mikla sorphaugs Kyrrahafsins, á milli Hawaii og Kaliforníu, sem nefnist á ensku „The great Pacific garbage patch“.

Svo þétt var þyrpingin við norðurjaðarinn, að hún var meiri en búist hafði verið við að hún yrði í sjálfri miðju haugsins, að því er Guardian greinir frá.

Frá kynningu Ocean Cleanup um könnunarferðina.
Frá kynningu Ocean Cleanup um könnunarferðina. Ljósmynd/Ocean Cleanup

„Venjulega þegar þú gerir könnun úr lofti, þá sérðu viðfangsefnið og merkir það sérstaklega hjá þér,“ segir Boyan Slat, stofnandi Ocean Cleanup verkefnisins, sem hollenska ríkisstjórnin fjármagnar að hluta.

„Það var áætlunin fyrir þessa ferð. En svo opnuðum við dyrnar á vélinni og sáum rusl alls staðar. Hverja hálfa sekúndu þá sástu eitthvað nýtt. Svo við þurftum að taka myndir í flýti, við höfðum ekki tíma til að skrá allt niður. Það var undarlegt að sjá svona mikið magn rusls í hafi sem ætti að vera ósnortið.“

Frétt mbl.is: Risavaxinn fljótandi sorphaugur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert