Galli í hugbúnaði líklegt banamein Schiaparelli

Á mynd sem HiRise-myndavélin tók í vikunni má sjá brotlendingarstað …
Á mynd sem HiRise-myndavélin tók í vikunni má sjá brotlendingarstað Schiaparelli. Þar sést einnig bakhlífin og fallhlífin sem eru mun bjartari en leifarnar af Schiparelli. Gígurinn sem varð til er 2,4 metra breiður og hálfur metri á dýpt. Ekki er vitað hvað bogadregna línan út frá staðnum er, sennilega logandi leifar sem hafa rúllað eftir yfirborðinu. ljósmynd/Stjörnufræðivefurinn

Líklegt er talið að galli í hugbúnaði eða útreikningum hafi valdið glötun evrópska lendingarfarsins Schiaparelli sem átti að lenda á reikistjörnunni Mars í síðustu viku. HiRise-myndavél Mars Reconnaissance Orbiter náði betri myndum af brotlendingarstaðnum í vikunni.

Schiaparelli var hluti af ExoMars-leiðangri evrópsku og rússnesku geimstofnananna en farinu var ætlað að prófa tæknina sem þarf til að lenda könnunarjeppa á reikistjörnunni. Fjarskipti við farið rofnaði hins vegar skömmu áður en það átti að lenda á yfirborði Mars.

Frétt Mbl.is: Hlaut ofsafengin endalok á Mars

Í fyrstu virtist allt ganga að óskum en þegar fjórar mínútur og 41 sekúnda af nærri því sex mínútna flugi Schiaparelli niður að yfirborðinu voru liðnar fór eitthvað úrskeiðis. Í frétt á vef Nature kemur fram að hitaskjöldur og fallhlíf geimfarsins hafi verið losuð of snemma og stýriflaugarnar sem áttu að hægja á ferð þess síðasta spölinn hafi aðeins brunnið í þrjár sekúndur í stað þrjátíu.

Svo virðist sem að tölvan um borð í Schiaparelli hafi talið að það væri þegar lent og kveikti hún meðal annars á mælitækjum sem náðu engu að síður ekki að safna neinum gögnum því geimfarið var enn of hátt uppi. Schiaparelli féll líklega tvo til fjóra kílómetra niður og brotlenti á yfirborði reikistjörnunnar á meira en 300 kílómetra hraða á klukkustund.

Andrea Accomazzo, yfirmaður sólar- og reikistjörnuleiðangra Evrpóska geimstofnunarinnar (ESA), segir við Nature að líklegasti sökudólgurinn sé galli í hugbúnaði Schiaparelli eða vandamál við að vinna úr gögnum sem komu úr mismunandi skynjurum. Það hafi leitt til þess að geimfarið hafi talið sig vera komið neðar en það var. Hann leggur þó áherslu á að niðurstaða sé ekki komin í rannsóknina og þetta sé aðeins kenning hans.

Frétt Nature

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert