„Golfkúlan“ á Mars loftsteinn úr málmi

Loftsteinninn er á stærð við golfkúlu og er úr blöndu ...
Loftsteinninn er á stærð við golfkúlu og er úr blöndu járns og nikkels. ljósmynd/NASA/JPL-Caltech/MSSS

Leysigeislarannsóknir hafa leitt í ljós að framandlegur hnullungur á stærð við golfkúlu sem varð á vegi Curiosity-könnunarjeppans á yfirborði Mars er loftsteinn úr blöndu járns og nikkels. Vísindamenn telja að hann hafi getað fallið til Mars fyrir mörgum milljónum ára.

Stjórnendur Curiosity ráku augun í undarlega lagaðan steininn á myndum sem könnunarjeppinn tók með MastCam-myndavélinni á ökuferð sinni í neðri hlíðum Sharp-fjalls 27. október.  Honum var gefið nafnið „Eggsteinninn“ þar sem hann líktist helst eggi eða golfkúlu í lögun.

„Dökkt, slétt og gljáandi útlit þessa viðfangsefnis og kúlulögun þess vakti athygli nokkurra vísindamanna MSL þegar við fengum MastCam-myndirnar af nýjum vettvangi,“ segir Pierre-Yves Meslin, vísindamaður sem starfar við Curiosity-leiðangurinn, í frétt á vef NASA.

Í kjölfarið notaði Curiosity litrófsmælinn ChemCam sem skýtur leysigeisla til að efnagreina steininn. Niðurstaðan var sú að hann væri úr járni, nikkel, fosfór og fleiri efnum. Nákvæm efnasamsetning hans er í samræmi við loftsteina sem einnig eru algengir á jörðinni.

Samsett og lituð mynd af loftsteininum sem varð á vegi ...
Samsett og lituð mynd af loftsteininum sem varð á vegi Curiosity-könnunarjeppans. ljósmynd/NASA/JPL-Caltech/LANL/CNES/IRAP/LPGNantes/CNRS/IAS/MSSS

Þó að loftsteinar af þessu tagi hafi áður sést á yfirborði rauðu reikistjörnunnar er þetta í fyrsta skipti sem vísindamenn nota leysigeisla til þess að efnagreina einn slíkan.

Með því að rannsaka loftstein eins og Eggsteininn geta vísindamenn fengið hugmynd um hvernig veðrun í umhverfinu á Mars yfir lengri tíma hefur áhrif á loftsteina í samanburði við það sem gerist á jörðinni.

Loftsteinar úr járni koma eiga yfirleitt uppruna sinn að rekja til kjarnaefnis smástirna sem bráðnaði og myndaði kjarna í miðju þeirra. Vísindamennirnir telja að Eggsteininn hafi fallið á Mars fyrir milljónum ára síðan.

„Járnloftsteinar eru heimild um mörg mismunandi smástirni sem brotnuðu í sundur og brot úr kjörnum þeirra enduðu á jörðinni og Mars. Mars gæti hafa fengið skammt af öðrum hópi smástirna en jörðin,“ segir Horton Newsom, einn meðlima ChemCam-teymis Curiosity-leiðangursins.

Frétt á vef NASA

mbl.is
Fágætar vínilplötur í Kolaportinu!!
Mikið úrval af fágætum vínilplötum í Kolaportinu við gluggavegg miðjan sjávarmeg...
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...
Sænsk sumar- og ferðaþjónustuhús
Vinsælu sænsku sumar- og ferðaþjónustuhúsin Leksand 32 m2 auk 8 m2 verandar eru ...
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...