Stærsti geimsjónauki heims tilbúinn

Tæknimaður NASA við risavaxinn spegil James Webb-geimsjónaukans.
Tæknimaður NASA við risavaxinn spegil James Webb-geimsjónaukans. AFP

Verkfræðingar og vísindamenn hafa nú lokið smíði James Webb-geimsjónaukans sem hefur verið nefndur arftaki Hubble-geimsjónaukans. Geimsjónaukinn hefur verið tuttugu ár í smíðum og er sá stærsti sinnar tegundar. Til stendur að skjóta honum á loft árið 2018.

James Webb er samstarfsverkefni bandarísku, evrópsku og kanadísku geimvísindastofnananna. Upphaflega stóð til að skjóta honum á loft árið 2014 en röð vandamála og skortur á fjárveitingum urðu næstum því til þess að verkefnið væri blásið af með öllu. Heildarkostnaðurinn við hann er sagður nema 8,7 milljörðum dollara.

Geimsjónaukinn er engin smásmíði. Hann samanstendur af átján stórum speglum sem saman eru sex og hálfur metri að þvermáli. Til samanburðar er spegill Hubble, öflugasta geimsjónauka mannkynsins, 2,4 metrar að þvermáli. Alls er samsetti spegill James Webb 25 fermetrar.

Nota jörðina sem sólhlíf fyrir sjónaukann

Ólíkt Hubble er James Webb sérstaklega hannaður til að safna innrauðu ljósi sem gerir honum kleift að horfa í gegnum geimryk sem byrgðu honum annars sýn og sjá fyrstu vetrarbrautirnar í alheiminum og nýmótuð sólkerfi að því er kemur fram í frétt Space.com. Þá á James Webb að vera nógu næmur til þess að geta efnagreint lofthjúpa fjarreikistjarna þegar þær ganga fyrir sólstjörnur sínar. Þannig gæti hann hugsanlega fundið merki um líf.

Sjónaukanum verður skotið á loft með Ariane 5-eldflaug í október árið 2018 ef allt gengur að óskum. Hann verður ekki á braut um jörðina eins og Hubble heldur verður honum komið fyrir í svonefndum Lagrange-punkti 2 í um 1,5 milljón kílómetra fjarlægð frá jörðinni. Það er staður í geimnum þar sem þyngdarafl jarðar og sólar jafnast út. Þannig getur James Webb verið á braut um sólina á bak við jörðina. Virkar jörðin þá sem sólhlíf til að draga úr innrauðri geislun frá sólinni sem gæti truflað athuganir hans.

Frétt Mbl.is: Arftaki Hubble-sjónaukans afhjúpaður

John Mather, stjarneðlisfræðingur og einn aðalvísindamanna James Webb-sjónaukans, sagði á blaðamannafundi á miðvikudag að geimsjónaukinn væri svo næmur að hann gæti séð býflugu í fjarlægð tunglsins, bæði frá endurvörpuðu ljósi og innrauðum líkamshita hennar. Spegill sjónaukans sé svo sléttur að ef hann væri á stærð við Bandaríkin væru misfellurnar aðeins örfáir sentímetrar að hæð.

Charles Bolden, forstöðumaður NASA, var kampakátur þegar tilkynnt var að …
Charles Bolden, forstöðumaður NASA, var kampakátur þegar tilkynnt var að smíði sjónaukans væri lokið. AFP

„Sex mánuðir hryllings“

Nú taka við prófanir á sjónaukanum, meðal annars til að tryggja að hann þoli hristinginn og hávaðann við eldflaugarskotið. Enn mikilvægara en ella er að vanda allan undirbúning því engin leið verður til að gera við sjónaukann þegar hann er kominn á áfangastað eins og þurfti að gera með Hubble-sjónaukann á sínum tíma.

Frétt Mbl.is: Afhjúpar undur í aldarfjórðung

Til að fyrirbyggja það vandamál er sérhver speglanna átján stillanlegur úr fjarlægð. Vísindamenn gera fyllilega ráð fyrir að sjónaukinn verði fyrir geimbraki á þeim fimm árum sem þeir búast við að nota hann í það minnsta. Því er hann hannaður til að virka þrátt fyrir lítil göt í speglinum.

Nægt eldsneyti verður um borð fyrir tíu ára leiðangur, jafnvel meira ef heppnin verður með í för. Vegna þess hversu stór sjónaukinn er þarf að brjóta hann saman fyrir geimskotið. Þegar hann verður kominn á sinn stað verður breitt úr honum yfir tveggja vikna tímabil. Eftir það verður sólhlíf hans opnuð og sjónaukanum leyft að kólna en hann á að starfa við nærri því alkul.

Sjónaukinn á svo að vera tilbúinn til að gera nýjar uppgötvanir um hálfu ári eftir að hann kemur á áfangastað. Mather vísaði til „sjö mínútna hryllings“ þegar könnunarjeppinn Curiosity kom til lendingar á Mars árið 2012.

„Þetta verða sex mánuðir hryllings,“ sagði hann.

Umfjöllun Space.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert