Lamaðir apar gátu hreyft sig á ný

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Nature.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Nature. Ljósmynd/Skjáskot af vef BBC

Ígræðsla sem sendir frá sér leiðbeiningar til heilans hefur í fyrsta sinn verið notuð til að endurvekja hreyfingu í lömuðum öpum.

Rhesus-apar voru lamaðir í einum fótlegg vegna mænuskaða.

Hópi vísindamanna við Tæknistofnun svissneska ríkisins tókst að sneiða framhjá mænuskaðanum með því að senda leiðbeiningar beint úr heilanum til tauga sem stjórna hreyfingum fótleggja, að því er BBC greindi frá.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Nature. Þar kom fram að aparnir fengu einhverja stjórn á lamaða fótleggnum innan sex daga. Einnig gátu þeir gengið í beinni línu á hlaupabretti.

Sérfræðingarnir telja að hugsanlega verði hægt að prófa tæknina á mönnum innan áratugar.

Mænuskaði kemur í veg fyrir að rafmerki berist frá heilanum til líkamans og veldur það lömun.

Mænuskaði læknast sjaldan en ein möguleg leið er að nota nýjustu tækni til að sneiða framhjá meiðslunum.

„Núna get ég í fyrsta sinn ímyndað mér að lamaður sjúklingur geti hreyft fótleggina sína í gegnum þetta samspil heilans og mænunnar,“ sagði Jocelyne Bloch, taugaskurðlæknir við háskólann í Lausanne.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert