Spóinn flýgur án millilendingar

Íslenskir spóar geta flogið viðkomulaust alla leið suður til Vestur-Afríku.
Íslenskir spóar geta flogið viðkomulaust alla leið suður til Vestur-Afríku. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rannsóknir íslenskra vísindamanna við rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi og samstarfsmanna þeirra hafa leitt í ljós að íslenski spóinn flýgur alla leið til Vestur-Afríku án viðkomu annars staðar. Spóinn flýgur í allt að fimm sólahringa samfellt yfir þúsundir kílómetra.

Vísindamennirnir notuðu svokallaða dægurrita sem eru litlir hnappar á stærð við fingurnögl sem komið var fyrir á fjórum spóum til að fylgja með ferðum þeirra. Fylgst var með fuglunum í heilt ár. Allir flugu þeir þeir beint til Vestur-Afríku að hausti án þess að stoppa. Lögðu þeir stað frá Íslandi dagana 3.-6. ágúst. Flugu þeir 79-120 klukkustundir án þess að una sér hvíldar. Alls flugu þeir 3.898 til 5.535 kílómetra leið.

Meðalferðahraðinn á leiðinni allri var um 50 kílómetrar á klukkustund en sumir leggir ferðarinnar voru þó farnir á mun meiri hraða, eða á allt að 80 til 90 kílómetra hraða á klukkustund, að því er kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands um rannsóknina sem birtist í vísindaritinu Scientific Reports í dag.

Þetta er sagður einhver mesti hraði sem mælst hefur hjá landfuglum á langferðum yfir sjó. Reiknað var samband milli ferðahraða spóa og vindhraða í mismunandi hæð til að meta hversu hátt spóarnir flugu. Besta sambandið var við vindhraða í 1,5 km hæð sem bendir til að þeir fljúgi nokkuð hátt.

Þá reyndust fuglarnir ekki endilega fljúga sömu leið á vori og hausti. Á vorfarinu höfðu tveir fuglanna viðkomu á Bretlandseyjum en tveir þeirra flugu beint til Íslands. Fuglarnir yfirgáfu Afríku 20. til 29. apríl. Þeir sem flugu beint náðu til Íslands 29. apríl og 4. maí en þeir sem höfðu viðkomu á Bretlandseyjum dvöldu þar ellefu og fimmtán daga og komu til Íslands 12. og 14. maí.

Aðahöfundur greinarinnar er José Alves, nýdoktor við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi, en aðrir höfundar eru þau Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður rannsóknasetursins, Maria P. Dias, vísindamaður við Instituto Universitário í Lissabon í Portúgal, Verónica Méndez, vísindamaður við University of East Anglia í Bretlandi, og Borgný Katrínardóttir, líffræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands.

Flugleiðir spóanna fjögurra sem vísindamennirnir fylgdust með.
Flugleiðir spóanna fjögurra sem vísindamennirnir fylgdust með. kort/Háskóli Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert