Curiosity stopp með bilaðan bor

Hluti af bor Curiosity á mynd frá því í febrúar …
Hluti af bor Curiosity á mynd frá því í febrúar í fyrra. ljósmynd/NASA/JPL-Caltech/MSSS

Könnunarjeppinn Curiosity er kominn í snemmbúið jólafrí eftir að bor sem notaður er til að rannsaka jarðmyndanir á Mars bilaði í byrjun mánaðar. Stjórnendur jeppans hafa ákveðið að láta hann halda kyrru fyrir á meðan verkfræðingar reyna að komast til botns í biluninni.

Vandamálið með borinn lét fyrst á sér kræla 1. desember en þá gat Curiosity ekki lokið borun sem til stóð að gera í hlíðum Sharp-fjalls sem vélmennið hefur verið að mjaka sér upp undanfarna mánuði, að því er kemur fram í frétt Spaceflight Now.

Í fyrstu töldu verkfræðingar að vandamálið mætti rekja til hugbúnaðar sem tengist skynjurum sem segir tölvu Curiosity hvernig borinn gengur. Eftir frekari skoðun lítur hins vegar út fyrir að bilunin sé vélræns eðlis. Hemill í hluta borsins sem færir hann upp og niður er sagður standa á sér.

Curiosity boraði þessa holu í jarðveginn á Mars 19. maí …
Curiosity boraði þessa holu í jarðveginn á Mars 19. maí 2013 og tók sýni úr berginu. NASA/JPL-Caltech/MSSS

Ashwin Vasavada, vísindamaður við Curiosity hjá Jet Propulsion Lab NASA í Kaliforníu, segir að tekist hafi að laga vandamálið að hluta til að byrja með. Nú komi vandamálið hins vegar ítrekað upp.

Tvö aðalrannsóknatæki Curiosity reiða sig á bergsýni sem borinn á færanlegum armi könnunarjeppans aflar. Þau leita meðal annars að lífrænum efnasamböndum og greina steinefni í sýnunum.

Curiosity er nú á sínu fimmta ári á rauðu reikistjörnunni en upphaflega átti leiðangurinn aðeins að standa yfir í tvö ár. Á þeim tíma hefur jeppinn keyrt um fimmtán kílómetra eftir yfirborði Mars. Könnunarfarið er nú að kanna hlíðar Sharp-fjalls og rannsaka sífellt yngri setlög eftir því sem það fer ofar. Setlögin gefa vísindamönnum betri hugmynd um hvernig loftslag Mars breyttist yfir hundruð milljóna ára.

Umfjöllun Spaceflight Now

mbl.is