Fjárvana áætlun til bjargar jörðinni

Tölvuteiknuð mynd af árekstri geimfarsins við smástirnið.
Tölvuteiknuð mynd af árekstri geimfarsins við smástirnið. AFP

Metnaðarfull áætlun geimferðastofnanna, um að fljúga geimfari inn í smástirni til að hrinda því af braut sinni, og þannig mögulega búa stofnanirnar undir að bjarga jörðinni frá tortímingu einn daginn, er nú fjárvana.

Verkefnið, sem er á vegum Evrópsku geimferðastofnunarinnar ESA og þeirrar bandarísku, NASA, hefur hlotið heitið AIDA, eða Asteroid Impact & Deflection Assessment.

Sex kílómetrar á sekúndu

Í því felst að árið 2022 sé skotið á loft 600 kílógramma geimfari í átt að Didymos, smástirni í um 13 milljón kílómetra fjarlægð frá jörðinni. Eftir tveggja ára sjálfstýrt ferðalag um geiminn myndi farið skella á fylgihnetti Didymos, sem nefnist Didymoon, á um sex kílómetra hraða á sekúndu.

Markmiðið væri þá að beina hinum 160 metra hnetti á aðra braut, sem marka myndi fyrsta skiptið sem mannkynið hefur skipt sér með slíkum hætti af öðrum fyrirbærum sólkerfisins.

ESA myndi leggja af mörkum lítið geimfar sem nefnist AIM, eða Asteroid Impact Mission, sem fylgjast myndi með árekstrinum úr öruggri fjarlægð, greina áhrif hans á braut smástirnisins og um leið samsetningu þess.

AIM-farið myndi taka myndir og greina áhrif árekstursins.
AIM-farið myndi taka myndir og greina áhrif árekstursins. AFP

Tæki myndir af árekstrinum

Á farinu yrði myndavél til að ná myndum af árekstrinum, sem talinn er myndu skilja eftir sig stóran gíg á stirninu og þyrla um leið upp risavöxnu skýi fullu af braki.

„Markmiðið er að prófa tæknina, svo að ef smástirni ógnar einhvern tíma reikistjörnunni okkar, þá munum við geta breytt braut þess,“ segir Ian Carnelli, forstöðumaður verkefnisins hjá ESA í samtali við fréttastofu AFP.

Mikið bakslag kom þó í áætlunina í desember síðastliðnum, þegar ráðherrar Evrópulanda komu saman á fundi um fjármál stofnunarinnar. Var þar hafnað að fjármagna verkefnið. ESA hafði hins vegar sóst eftir 250 milljónum evra, eða sem jafngildir rúmum 31 milljarði íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert