Fæddist með fjóra fætur og tvo limi

Drengurinn og foreldrar hans.
Drengurinn og foreldrar hans. Ljósmynd/Narayana Health City

Indverskur drengur sem fæddist með fjóra fætur og tvo getnaðarlimi fær bráðlega að fara heim eftir vel heppnaða aðgerð. Aðgerðin var afar flókin og krafðist aðkomu tuttugu lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna.

Umræddur fæðingargalli kallast polymelia og er arfgengur en sjaldgæfur. Það sem gerðist í tilfelli drengsins í Bangalore er að í móðurkviði þróaðist fóstrið í samvaxna tvíbura en á ákveðnum tíma hætti annar þeirra að þroskast, fyrir utan hendurnar og getnaðarliminn.

Það sem gerði aðgerðina sérstaklega flókna var að aðgreina þurfti alla vefi; þá sem tilheyrðu drengnum og þá sem tilheyrðu hinum óþroskaða tvíbura.

Aðgerðin var framkvæmd af Sanjay Rao, barnaskurðlækni við Narayana Health City. Hann fékk leyfi foreldra drengsins til að tjá sig um málið við fjölmiðla.

Þetta mun vera í fjórða sinn sem aðgerð af þessu tagi er gerð við Narayana en eitt tilfellanna vakti mikla athygli. Þar var um að ræða stúlkuna Lakshmi Tatma, sem fæddist með fjórar hendur og fjóra fætur.

Þúsundir heimsóttu hana þar sem þeir töldu hana gyðjuna Laxmi endurholdgaða.

Foreldrar drengsins sem hér um ræðir voru ákveðnir í að láta hann gangast undir aðgerð, þar sem um læknisfræðilegt ástand væri að ræða.

Að sögn Rao mun hann þurfa á fleiri aðgerðum að halda en mun að öðru leyti eiga venjulega æsku.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert