Krybbuhljóð gætu heyrt sögunni til

Krybbur má finna víða í Evrópu.
Krybbur má finna víða í Evrópu. Ljósmynd/Wikipedia

Fyrsta heildstæða rannsóknin á krybbum og engisprettum í Evrópu, hefur sýnt fram á að rúmur fjórðungur tegundanna á það á hættu að deyja út.

Alþjóðasamtök um verndun náttúrunnar, IUCN, segja þennan hóp skordýra vera í mestri hættu af þeim sem þegar hafa verið rannsökuð í álfunni.

Fleiri en þúsund tegundir krybba og engisprettna má finna í Evrópu. Í þeim felst mikilvæg fæða fyrir fugla og skriðdýr og hrun í þeirra röðum gæti haft áhrif á heilu vistkerfin, að því er fram kemur í skýrslu samtakanna.

Heimkynni þeirra eru að tapast vegna skógarelda, aukins landbúnaðar og uppbyggingar í kringum ferðaþjónustu.

„Ef við gerum ekki neitt í þessu núna, þá gætu krybbuhljóð á graslendum Evrópu heyrt sögunni til,“ segir Jean-Christophe Vié, aðstoðarforstöðumaður samtakanna, í samtali við fréttastofu BBC.

Rannsóknin fór fram á tveggja ára tímabili en að henni komu fleiri en 150 vísindamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert