Mikill meirihluti hefur áhyggjur af loftslagsmálum

AFP

Töluverður meirihluti Íslendinga hefur miklar áhyggjur af loftslagsbreytingum á jörðinni, eða um 70%. Aðeins tæplega 7% segjast hafa litlar áhyggjur af loftslagsbreytingum á jörðinni en hartnær fjórðungur er þar á milli. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem Maskína hefur unnið.

Konur hafa meiri áhyggjur af loftslagsbreytingum á jörðinni en karlar. Á milli 73-74% kvenna segjast hafa miklar áhyggjur á meðan um 66% karla segja það sama. Töluverður munur var á svörum eftir menntun. Þeir sem hafa lokið háskólaprófi hafa í meirihluta miklar áhyggjur af loftslagsbreytingum, eða 73-82%, á meðan hátt í 46% af þeim sem hafa aðeins lokið grunnskólaprófi segjast hafa miklar áhyggjur.

AFP

Kjósendur flokkanna hafa misjafnar skoðanir á loftslagsmálum. Þeir sem hafa minnstar áhyggjur af loftslagsbreytingum á jörðinni eru kjósendur Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, en aðeins ríflega 50% kjósenda þeirra flokka segjast hafa miklar áhyggjur. Kjósendur Pírata, Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Vinstri grænna hafa allir svipað miklar áhyggjur, en á milli 81-83% þeirra segjast hafa miklar áhyggjur.

Einnig var spurt hversu líklegt eða ólíklegt svarendur teldu að loftslagsbreytingar væru tilkomnar af mannavöldum. Slétt 3% telja að það sé ólíklegt á meðan hátt í 87% telja það líklegt.

Aftur var töluverður munur á milli svarenda eftir pólitískri skoðun. Á bilinu 67-70% kjósenda Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins telja það líklegt að loftslagsbreytingar séu tilkomnar af mannavöldum á meðan 91-98% kjósenda annarra flokka telja það líklegt. Meðal annars telur enginn kjósandi Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna í úrtakinu að það sé ólíklegt að loftlagsbreytingar séu af mannavöldum.

Mjög ólík niðurstaða úr könnun MMR

Svarendur voru 782 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 27. janúar til 6. febrúar 2017.

AFP

Í skoðanakönnun MMR frá því fyrr í mánuðinum ollu loftslagsbreytingar um 17% svarenda áhyggjum.

Sjá MMR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert