Svifið á „sjóbólum“ upp og niður Signu

Sjóbóla er eins og smábíll að stærð, tæpir fjórir metrar ...
Sjóbóla er eins og smábíll að stærð, tæpir fjórir metrar á lengd og tveir á breidd. Tilraunir hefjast í sumar með þessi nýstárlegu farartæki.

Hálffljúgandi svifnökkvar verða í ferðum sem leigubílar upp og niður Signu í París á næsta ári heppnist tilraunir með nökkvana í sumar vel. Séð er fram á að það gæti linað umferðarálagið dags daglega á götum borgarinnar.

Vissulega virðist ferðamáti þessi í svalara lagi og eflaust tilkomumikil upplifun. Út frá því ganga höfuðpaurar verkefnisins alla vega.

Alain Thebault og Anders Bringdal heita mennirnir á bak við sprotafyrirtækið SeaBubble og þróunarverkefnið í París, sem ber sama heiti. Annar þeirra seglbrettasiglari af betri gerðinni og hinn annálaður skútukappi.

Farartækin framúrstefnulegu og vistvænu bera þetta sama nafn sem leggjast mætti út sem „sjóbólur“. Nökkvarnir verða á stærð við smábíl og munu svífa rétt yfir yfirborðinu. Talað er um þá sem fljúgandi leigubíla.

Fyrst um sinn verða sæti fyrir fimm í hverri sjóbólu.
Fyrst um sinn verða sæti fyrir fimm í hverri sjóbólu.

Vistvænt farartæki

Thebault og Bringdal eru engir aukvisar þegar ferðalög á legi eru annars vegar. Saman hönnuðu þeir þríbytnuna L'Hydroptere árið 2009 er setti hraðamet á sjó. Hún var að nær öllu leyti ofansjávar á bruninu og líktist fremur fljúgandi skútu.

Aðeins vængir voru niðri í sjónum sem lyftu henni upp úr sjávarfletinum á ferð. Meðalhraði hennar á metsiglingunni umhverfis jörðina var hátt í 50 hnútar, eða um 90 km/klst.

Sjóbólurnar nýstárlegu verða hins vegar knúnar áfram af litlum rafmótorum sem knýja litlar skrúfur. . Byggingarefni sólbólunnar er þeim kostum búið að það brotnar niður í náttúrunni og mengar því ekki. Er það þróað úr blöndu af trefjagleri og hátíðnifrauði.

Kostar smíði hvers eintaks um 12.000 evrur, tæplega 1,5 milljónir króna.

Fjöldi fyrirtækja hefur sýnt áhuga á að eiga aðild að sjóbólu-verkefninu í París, þar á meðal franski bílsmiðurinn Renault. Þá hafa rúmlega eitt hundrað manns lýst vilja til að kaupa sitt eigið eintak af farartækinu og skráð sig á sérstakan biðlista.

Áætlað er að með öllu muni það kosta til notenda um 30.000 evrur, eða 3,6 milljónir króna.

Efasemdamenn hafa talað um áformin sem kafla í vísindaskáldsögu.
Efasemdamenn hafa talað um áformin sem kafla í vísindaskáldsögu.

Þurfa undanþágu frá siglingahraða

Um er að ræða skilvirkan og vistvænan samgöngumáta. Mun það hafa ráðið úrslitum um að Parísarborg ákvað að eiga aðild að tilraunum með þessi farartæki.

„Ég hef mikla trú á því að þróa megi vatnasamgöngur. Margar af stærstu borgum heims urðu til á árbökkum sem eru aðstæður sem við eigum að færa okkur í nyt til að þurfa ekki að reiða okkur eins mikið á mengandi bíla,“ sagði Anne Hidalgo borgarstjóri er áform SeaBubble voru kynnt.

Sjóbólan mun líða áfram tignarlega á um 6 hnúta hraða, 11-12 km. Hámarkshraði getur þó orðið allt að 30 km/klst. Samkvæmt gildandi reglum um siglingar á Signu má þar ekki fara hraðar um en á 12 km/klst.

Óvíst er á þessu stigi hvort fararskjótinn lyftist nógsamlega upp úr vatninu á þeirri ferð. Meiri hraði myndi gera siglingu bólunnar enn skilvirkari og því mun vera í bígerð að óska eftir undanþágu frá hraðareglunum hjá sýslumanni Parísar.

Drægi farartækisins verður á bilinu 80-100 km á fullri hleðslu. Verða þau einkar hljóðlát og ryðja ekki frá sér öldum eins og bátur sem klýfur vatnsflötinn. Þar með valda ferðir þeirra engum skemmdum á árbökkum.

Er hlutum þannig hagað að svo virðist sem farartækin fljóti rétt yfir yfirborðinu þegar komið er á ferð. Ástæðan er sú að í kafi verða vængir sem lyfta búk nökkvans upp úr yfirborðinu og draga þannig úr mótstöðu sem ella væri fyrir hendi ef búkurinn væri í yfirborði árinnar. Er þar í raun á ferðinni sama hugmyndin og að baki seglskútunni fyrrnefndu.

Aðstandendur verkefnisins gera ráð fyrir að ráðast í sambærileg verkefni ...
Aðstandendur verkefnisins gera ráð fyrir að ráðast í sambærileg verkefni í öðrum evrópskum stórborgum.

Tilraunir í sumar

Áður en hægt verður að segja til um hvort um raunverulegan og sjálfbæran samgöngumáta geti orðið að ræða þarf að smíða frumgerð farartækisins og gera tilraunir með það. Áætlað er að hefja þróunar- og reynsluferðir á Signu í sumar, eða frá og með 14. júní samkvæmt nýjustu áætlunum.

Hinir hefðbundnu fljótabátar verða því ekki einu farartækin á Signu í sumar og þaðan í frá, gangi allt eftir sem ætlað er. Þar við bætast hinir fljúgandi SeaBubble vatnataxar, heimsins fyrstu. Gætu þeir orðnir að varanlegum samgöngumáta í borg ljósanna sumarið 2018.

Þeim er ætlað að bjóða upp á framúrstefnulegan öðruvísi samgöngukost í samkeppni við aðra og hefðbundnari samgöngur á Signu og á götum Parísar.

Sumir sjá fyrir sér að samskonar starfsemi gæti borgað sig í mörgum öðrum stórborgum heims sem stórfljót líða um.

Vaxandi borgarmyndun og loftslagsbreytingar þykja kalla á lausnir sem þessar.
Vaxandi borgarmyndun og loftslagsbreytingar þykja kalla á lausnir sem þessar.

Sjálfsigldir síðar meir

Fyrst um sinn verða sæti fyrir fimm í hverri einstakri sjóbólu, þar með talið sæti ökumanns. Til lengri tíma litið er miðað við að ekki þurfi sérstakan ökumann til að sigla bólunni milli áfangastaða.

Við því hlutverki taki innbyggt vélmenni sem tekur við boðum frá snjallsímaappi Verða farartækin til leigu á sérstökum ferjubryggjum meðfram ánni. Í verði eru taxar þessir sagðir verða samkeppnisfærir við aðra samgöngumáta á Signu.

Segir Thebault að París hafi einmitt orðið fyrir valinu vegna áhuga Hidalgo. Hafi það skipt sköpum við að ýta verkefninu úr vör. Myndu þeir þakka fyrir sig með prófununum á Signu, með allt að tug sjóbóla í sumar.

Þegar verkefnið væri komið á góðan rekspöl þar og orðið að raunverulegu samgöngufyrirtæki yrði ráðist í sambærileg verkefni í öðrum stórum evrópskum borgum. Til dæmis hafa yfirvöld í London auðsýnt mikinn áhuga á að taka siglingar sem þessar upp á Tempsá.

Þá hafa viðræður um samgöngukerfi sem sólbólanna þegar farið fram við yfirvöld í bæði í New York-borg og á Flórída í Bandaríkjunum. Þar um slóðir er áhugi fyrir því að reka mörg hundruð sjóbólur á Hudson-ánni, og um 1.500 eintök víða í Flórída.

Vaxandi borgarmyndun og loftslagsbreytingar þykja hvort tveggja kalla á lausnir sem þessar, að sögn sérfæðinga um samgöngumál.

Þróunar- og reynsluferðir verða á Signu í sumar.
Þróunar- og reynsluferðir verða á Signu í sumar.

Vísindaskáldsaga

Stutt getur verið í að hin ævintýralega hugmynd um „fljúgandi“ leigubíla siglandi upp og niður Signu með gesti borgarinnar eða Parísarbúa á leið úr og í vinnu verði að veruleika. Því verður sennilega vart á móti mælt, að sætt verður að sjá sjóbólurnar svífa um fljótið.

Efasemdamenn hafa talað um áformin sem kafla í vísindaskáldsögu. Verkefnið sé bæði draumórakennt og útópískt; muni með öðrum orðum aldrei takast. Tíminn á eftir að leiða í ljós hverjir hafa rétt fyrir sér.

„Sjóbólan er ekkert grín, þetta er alvöruverkefni og einstök framtíðarlausn í fólksflutningum innan borgarinnar. Á Signu eru minni teppur en á götum Parísar,“ segir Anne Hidalgo borgarstjóri.

SUMARHÚS - GESTAHÚS - BREYTINGAR
Sumarhús - Gestahús - Breytingar ? Framleiðum stórglæsileg sumarhús í ýmsum stær...
OZONE lofthreinsun tæki til leigu.
Rekur þú hótel/gistihús,þetta tæki eyðir allri ólykt m.a. af raka-myglu-og reyk....
LÚGUSTIGAR - SMÍÐUM EFTIR MÁLI
Sérsmíðað, eigum á lager 68x85 og 55x113 Einnig Álstiga í op 45,7x56 eða stærra ...
HARMONIKKUHURÐIR SPARA MIKIÐ PLÁSS
Margar gerðir, oftast afgreiddar samdægurs, verð frá kr. 13.900,- Sími 848 3215...
 
Félagsstarf eldirborgara
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa kl. 9 og b...
Mat á umhverfisáhrifum
Tilkynningar
Mat á umhverfisáhrifum Álit...
Framhalds uppboð
Nauðungarsala
Uppboð Einnig birt á www.naudungar...
Hádegisfundur
Fundir - mannfagnaðir
ses.xd.is Samtök eldri sjálfstæði...