Hefur lést um 250 kíló

Saifee-sjúkrahúsið birti þessa ljósmynd af Eman Ahmed Abd El Aty …
Saifee-sjúkrahúsið birti þessa ljósmynd af Eman Ahmed Abd El Aty í byrjun mars. AFP

Egypsk kona, sem var talin vera þyngsta kona heims, hefur lést um helming, að því er læknar konunnar segja. Konan, sem gekkst undir aðgerð á Indlandi, vó 500 kíló en hefur nú misst 250 kíló í kjölfar skurðaðgerðar.

Fjölskylda Eman Abd El Aty segja að hún hafi ekki getað yfirgefið heimili sitt í aldarfjórðung. Hún gekkst undir skurðaðgerð gegn offitu á Saifee-sjúkrahúsinu í Mumbai fyrir tveimur mánuðum. 

Talsmenn sjúkrahússins segja að hún geti nú ferðast um í hjólastól auk þess sem hún geti setið lengi uppi, að því er segir á vef BBC.

Sjúkrahúsið hefur birt ljósmyndir af Abd El Aty í kjölfar aðgerðarinnar og meðfylgjandi myndskeið. 

Skurðaðgerð gegn offitu er eingöngu ætluð mjög þungum sjúklingum. Aðgerðin er ekki fegrunaraðgerð og markmið aðgerðarinnar er fyrst og fremst að fyrirbyggja/meðhöndla fylgisjúkdóma alvarlegrar offitu, að því er fram kemur á doktor.is. 

Í framhaldinu mun Abd El Aty, sem er nú í umsjá móður sinnar og systur, taka inn sérstakt lyf vegna offitu, sem er enn á tilraunastigi, næstu sex mánuði. Læknarnir hafa sett sig í samband við bandarískt lyfjafyrirtæki til að fá lyfið. 

Fjölskylda Abd El Aty segir að hún hafi vegið fimm kíló við fæðingu. Hún hafi hins vegar greinst með alvarlega sogæðabólgu sem veldur því að útlimir geta orðið mjög þrútnir. Í hitabeltinu berast þráðormar með moskítóflugum og geta náð bólfestu í mönnum. Þráðormarnir geta stíflað sogæðar, valdið langvarandi sogæðabólgu og stöku sinnum því sem kallað er fílsfótur (e. elephantiasis), að því er segir á doktor.is.

Ellefu ára gömul hafði hún þyngst verulega auk þess sem hún fékk heilablóðfall sem varð þess valdandi að hún varð að vera rúmliggjandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert